Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup á Skálholti, varð fyrir því þeirri sérkennilegu reynslu að missa hluta af jólamatnum sínum í klær krumma.
„Sem betur fer var það ekki allur jólamaturinn en þetta var nú samt nokkuð dramatísk atburðarás,“ segir Kristján.
„Ég hengdi rjúpurnar upp úti á svölum. Svo rigndi svo mikið að ég ætlaði að fara með þær inn og frysta þær en hafði bara ekki náð að koma því í kring. Svo gekk ég á milli hússins hjá mér og út í skóla og sá krumma sitjandi uppi á skólanum. Ég vinkaði til hans en þegar ég hugsa til þess núna þá hefur hann kannski tekið það þannig að ég væri að bjóða honum matinn. Þegar ég loks kom upp í kirkju þá sé ég hann fljúga á brott með eitthvað hvítt í goggnum. Þegar heim var komið sá ég svo að þarna vantaði eina rjúpu. Krummi hafði þá farið inn á svalirnar og losað eina rjúpu en þær voru bundnar saman tvær og tvær. Ég bara vona að honum hafi orðið gott af þessu - jólin komu snemma hjá krumma í ár,“ segir Kristján léttur í bragði.
Kristján segir stuldinn ekki setja strik í reikninginn hvað jólamatinn varðar. „Við áttum samtals fimm rjúpur en verðum fjögur í mat. Annar sonur minn sagði að við losnuðum þá við að rífast um fimmtu rjúpuna. Það er vissulega jákvætt.“
„Það er föst hefð að hafa rjúpu á jólunum. Við hjónin höfum verið gift í rúm fjörutíu ár og aðeins einu sinni ekki haft rjúpu á jólunum. Meira að segja þegar við bjuggum í Þýskalandi í átta ár þá fengum við alltaf rjúpu senda til okkar þangað.“
Kristján er ekki ókunnugur hrafninum svarta. „Í fyrra hafði hrafninn komið og kroppað í jólahangikjötið sem þá hékk úti á svölum. Ég var ekki ánægður með það þannig að ég færði honum nokkrum sinnum gamalt hrossakjöt og afganga sem hann mátti kroppa í. Eftir það hætti hann að líta við hangikjötinu. Þetta eru skynsamir fuglar.“
Aðspurður segist Kristján ekki veiða rjúpurnar sjálfur. „Nei, ég hef aldrei snert á byssu, það eru bara ættingjarnir sem bjarga manni með rjúpur.“