Nemendum við Iðnskólann í Hafnarfirði hefur fækkað nokkuð á síðustu árum og þá sérstaklega þeim sem leggja stund á tréiðn, einkum húsasmíði. Áður brautskráði skólinn um tuttugu nemendur í lok hverrar annar en nú ljúka að jafnaði einn til þrír námi þegar útskrifað er. Skólameistari skólans, Ársæll Guðmundsson, segir skýringuna fyrst og fremst vera hrun á byggingarmarkaði; að húsasmiðir fái ekki vinnu.
„Síðastliðið haust urðum við vör við aukna aðsókn í húsgagnasmíði og virðist það vera eins í öðrum skólum sem bjóða það nám,“ segir Ársæll. Hann segist ekki vita fyrir víst af hverju áhugi á húsgagnasmíði hafi aukist svo mikið en telur að jákvæð umræða um hönnun kunni að spila inn í. „Einnig fór innflutningur niður úr öllu valdi, til dæmis á innréttingum, í kreppunni og getur verið að það hafi þau áhrif að innlend vara hafi orðið vinsælli.“
Fækkun nema í þessari grein í skólanum hefur meðal annars haft þau áhrif að smíði Krísuvíkurkirkju hefur tafist. Að sögn Ársæls hefur það ekki komið að sök þar sem ítarlegri fornleifarannsóknir þurfa að fara fram á kirkjustæðinu en gert var ráð fyrir til að byrja með. Smíði kirkjunnar er þó komin vel á veg.
Að sögn Ársæls leggja sífellt fleiri stund á málmiðnir við skólann, enda vanti mikið af lærðum iðnaðarmönnum í þeim geira, svo sem í rennismíði og stálsmíði. Árið 2008 voru nemendur í pípulögnum komnir yfir hundrað en síðan þá hefur þeim farið fækkandi og eru nú rúmlega 40 nemendur við nám í greinni í skólanum.
Ársæll segir að margi hafi lokið námi og haldið til Noregs í kjölfarið. Nemendum í rafvirkjun hafi fækkað strax eftir hrun en undanfarið hafi þeim farið fjölgandi og má segja að nemendafjöldi í þeirri iðngrein hafi verið nokkuð stöðugur, að sögn Ársæls.
„Það varð hrun í þessum geira og þegar það er lítil vinna þá er eðlilegt að ungt fólk sæki ekki í þetta nám,“ segir Bragi Finnbogason, Meistarafélagi húsasmiða. Hann segir hugsunina í samfélaginu vera þá að iðngreinar séu annars flokks og stórt vandamál sé að eftirsóknin í iðnnám sé ekki meiri.
Hann segir að þessi litlu aðsókn í húsasmíðanám geti haft slæmar afleiðingar til lengri tíma, en um leið og eftirspurn eftir trésmiðum verði meiri verði fljótlega fram skortur á iðnaðarmönnum. Bragi segist telja að flestir trésmiðir hafi vinnu í dag.