Í framhaldi af fréttum um netárás hjá Vodafone var öryggisáætlun Símans virkjuð og voru sérfræðingar fyrirtækisins að störfum í gær. Ekki liggur fyrir vitneskja um neina árás á kerfi Símans, að sögn Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans.
„Það er mikilvægt að hafa í huga að netárásir eru alvarlegir glæpir sem öll fyrirtæki reyna að verjast með öllum tiltækum ráðum. Sú staðreynd að slík árás skuli ná til Vodafone á Íslandi hlýtur að vekja öll fyrirtæki til umhugsunar. Ekkert bendir til þess að utanaðkomandi aðili hafi komist í gögn hjá Símanum,“ segir Gunnhildur.
Þau gögn sem tyrkneski hakkarinn birti eru frá árinu 2011 og hefur það vakið spurningar um hvers vegna Vodafone geymdi enn þessar upplýsingar. Aðspurð segir Gunnhildur að Síminn geymi ekki svo gömul gögn.
„Samkvæmt lögum ber fjarskiptafyrirtækjum að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í 6 mánuði, í þágu rannsókna og almannaöryggis. Síminn hefur lagt ríka áherslu á að fylgja þessum reglum en við ítarleg störf sérfræðinga í gær kom í ljós að ein tegund gagna var geymd sex mánuðum lengur en gert er ráð fyrir eða í eitt ár. Þeim gögnum hefur verið eytt. Um var að ræða magnsendingar og VefSMS-bakendakerfi, þar sem SMS-sendingar fara frá vefsíðu.
Síminn hefur upplýst Póst- og fjarskiptastofnun og mun skila stofnuninni nánari upplýsingum um málið. Síminn ítrekar að ekki liggur fyrir vitneskja um neina árás á kerfi Símans og ekkert bendir til þess að utanaðkomandi aðili hafi komist í gögn hjá Símanum,“ segir Gunnhildur Arna.
Yfir sjö þúsund hafa sótt gögnin sem hakkarinn lak á deildu.net.