Á fyrsta ríkisstjórnarfundinum var rætt hvernig hægt væri að draga úr reglugerðarfargani. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í hringborðsumræðum Morgunblaðsins áðan. Komið væri upp svokallað „catch-22“ þar sem leyfi þyrfti til að fá annað leyfi. Gegn slíku yrði að sporna, þar sem það hefði neikvæð áhrif á atvinnulífið.
Forsætisráðherra sagði að verið væri að fara í gegnum allt regluverkið til að bæta úr þessu, en markmiðið væri jafnframt að koma í veg fyrir að svona þróun endurtæki sig til frambúðar. Horft væri til t.d. Bretlands í þessum efnum, og hefði verið skoðað að koma upp regluráði með aðilum vinnumarkaðar til að hindra að reglugerðafargan yrði atvinnulífi fjötur um fót.
„Við höfum verið kaþólskari en páfinn í að innleiða regluverk ESB í gegnum EES samninginn,“ sagði Sigmundur Davíð. Reynt hefði verið að bæta þar úr og taka ekki upp íþyngjandi reglur án þess að eitthvað annað dytti út á móti.
Haraldur Johannessen nefndi þá íblöndunarefni í bensín og dísilolíu sem dæmi um regluverk ESB sem verið væri að taka hér upp, en það virtist sem að verið væri að fara fullgeyst í að innleiðingu þess.
Sigmundur Davíð svaraði og sagði að þetta væri mjög dýrt og verið væri að bregðast við þessu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði hér mætti íhuga að nota hluta innlendrar framleiðslu til íblöndunar, grunnhugsunin væri jákvæð en ef þetta væri of dýrt væri betur heima setið.
Bjarni sagði að smækkun regluverksins skipti miklu máli, ekki síst fyrir smærri fyrirtæki. Hann myndi eftir því þegar hann hefði starfað hjá sýslumanninum í Keflavík, þar sem maður hefði viljað stofna lítinn steikarstað og hefði rekið slíkan á Spáni. Sá hefði þurft að koma ansi oft til sín. Það þurfti áfengis- og vínveitingaleyfi, veitingaleyfi, svo þurfti að tala við skipulagsyfirvöld vegna breytinga á húsnæðinu, heilbrigðiseftirlitið þurfti að votta staðinn, byggingareftirlitið að votta breytingarnar. Bjarni sagði að maðurinn hefði verið orðinn býsna niðurlútur eftir allar heimsóknirnar þegar hann vildi fá samþykkt nafnið, sem yrði orðið grill á spænsku. Þá var honum tilkynnt að það gengi ekki upp því að það samræmdist ekki íslenskri málvenju.