Varað við óveðri víða um landið

Vegir eru auðir um allt sunnanvert landið en annars staðar er víða nokkur vetrarfærð. Varað er við óveðri allvíða á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi.

Á Vesturlandi er víðast hvar autt en varað er við óveðri á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum eru sumstaðar hálkublettir eða krap en Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar. Óveður er á Mikladal, Hálfdáni, Gemlufallsheiði, Súðavíkurhlíð og Steingrímsfjarðarheiði.

Það er mikið autt á Norðurlandi vestra en þó eru hálkublettir á Vatnsskarði, Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi. Austan Tröllaskaga er víða nokkur hálka eða snjóþekja. Varað er við óveðri á Siglufjarðarvegi, í Ljósavatnsskarði, á Hólasandi og á Hófaskarði.

Á Austurlandi er enn sumstaðar hálka eða hálkublettir en þó aðallega á fjallvegum. Autt er með ströndinni suður um en varað við óveðri í Hvalnesi og í Öræfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert