Féll fyrir skotum lögreglu

Aðgerð lögreglunnar í Hraunbæ í morgun á sér enga hliðstæðu. Byssumaðurinn skaut á lögreglumenn. Skot hans hafnaði m.a. í hlífðarskildi lögreglumanns og féll hann niður stiga. Ákveðið var að rýma íbúðir í stigaganginum í kjölfarið. Maðurinn skaut síðar í höfuð lögreglumanns. Hann féll við en var með hjálm og slapp án mikilla meiðsla. Skot fóru fram hjá höfðum annarra lögreglumanna.

Lögreglan skaut þá byssumanninn sem lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Hann var vopnaður haglabyssu. Ljóst er að almennir lögreglumenn sem fóru fyrst á staðinn voru í mikilli hættu.

 Lögreglan skaut m.a. gassprengjum inn um glugga á íbúðinni til að reyna að yfirbuga manninn. Maðurinn hóf þá að skjóta út um glugga íbúðarinnar. 

Þetta kom fram í máli Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á blaðamannafundi sem hófst rétt eftir kl. 11.

„Lögreglan harmar þennan atburð og vill koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til fjölskyldu mannsins,“ sagði Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri á blaðamannafundinum.

„Hörmulegur atburður,“ sagði Haraldur við upphaf blaðamannafundarins. 

„Haft var samband bæði við innanríkisráðherra og ríkissaksóknara vegna þessa atviks sem á sér ekki fordæmi hér á landi,“ sagði Haraldur. Ríkissaksóknari mun fara með rannsókn málsins.

Í máli Stefáns Eiríkssonar kom fram að lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru sendir á staðinn vegna hávaða, hárra hvella, sem nágrannar heyrðu. Það var um kl. 3 í nótt. Sérsveitarmenn voru þegar kallaðir til.

Særðu manninn lífshættulega

Þegar lögreglumenn reyndu að hafa samband við íbúann heyrðist ekkert frá honum. Sérsveitin bjó sig undir inngöngu en þegar þeir fóru inn í íbúðina var skotið á þá. Skotið lenti í hlífðarskildi sem sérsveitarmaður var með, „hann féll við og niður stiga við þessa atlögu,“ sagði Stefán.

Lögreglan dró sig þá til baka og kallaði út aukinn liðsstyrk. Í framhaldi var farið í að rýma íbúðir í stigaganginum og þeim aðgerðum var lokið um kl. 5  í nótt.

Tilraunir til að hafa samband við manninn báru engan árangur og var reynt að yfirbuga hann með að skjóta gasi inn, hófst sú aðgerð um kl. 6 í morgun. Það bar ekki heldur árangur. Maðurinn brást við með því að skjóta út um glugga á íbúðinni. Í framhaldi af því var ákveðið að fara inn í íbúðina. „Til að tryggja öryggi allra á vettvangi voru sjúkrabifreiðar kallaðar út og allt tiltækt lögreglulið á svæðinu fór á vettvang.“

Stefán segir að tilraunir til að hafa samband við manninn hafi engan árangur borið. Því var reynt að yfirbuga hann með beitingu gasvopna sem skotið var inn í íbúðina. „Það bar ekki árangur og hóf maðurinn við það að skjóta út um glugga á íbúðinni.“

Þegar lögreglan fór inn í íbúðina skaut hann aftur á þá, í höfuð eins sérsveitarmanns, sem var með hjálm og sakaði ekki. Í kjölfarið var byssumaðurinn særður lífshættulega.

Það er ljóst að meiðsli lögreglumannanna eru ekki alvarleg en þeir hlutu þó ákveðin meiðsli að sögn Stefáns. Þeirra búnaður og þjálfun hafi komið í veg fyrir að þarna fór ekki verr.

Milli 15 og 20 lögreglumenn, auk sérsveitarmanna, tóku þátt í aðgerðinni. Tveir sérsveitarmenn slösuðust í aðgerðinni, annar fékk skot í andlit og hönd, en hann féll niður stiga eins og áður sagði. Almennir lögreglumenn og sérsveitarmenn mættu á vettvang á sama tíma.

Að sögn vitnis heyrðust fyrstu hvellirnir um klukkan eitt í nótt, en lögreglu barst ekki tilkynning um málið fyrr en klukkan þrjú. Aðgerðir lögreglu, frá því að hún kom á vettvang og þangað til maðurinn var færður í sjúkrabíl, stóðu milli þrjú í nótt og sjö í morgun.

Lögreglumenn með stóra riffla með öflugum sjónaukum komu sér fyrir á svokölluðum sjónpóstum til móts við íbúð mannsins, þar sem þeir eru manna færastir í að fylgjast með atburðum við þessar aðstæður. Ekki fékkst gefið upp hvort þeir hefðu skotið á manninn, en ljóst er að hann féll fyrir skotum lögreglu.

Jón Bjartmarz, yfirmaður sérsveitarinnar, sagði að lögreglan hefði brugðist rétt við aðstæðunum og farið að öllu eftir settum viðmiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka