Fyrri aðgerðir dragast frá lækkuninni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynnti aðgerðir stjórnvalda til að leiðrétta …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynnti aðgerðir stjórnvalda til að leiðrétta skuldastöðu heimilanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sú skuldalækkun sem fólk hefur fengið í gegnum sértæka skuldaaðgerðir á síðustu árum dregst frá þeirri lækkun sem núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að ráðast í. Þetta á t.d. við um 110% leiðina og sérstakar vaxtabætur sem greiddar voru á árunum 2011 og 2012.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar leggja áherslu á að sú aðgerð sem kynnt var um helgina sé almenn aðgerð sem eigi að gagnast öllum sem skulda fasteignalán og raunar einnig fleirum í gegnum séreignarsparnaðinn. Þeir sem áður hafa fengið leiðréttingu í gegnum sértækar aðgerðir eigi aðeins átt rétt á leiðréttingu að því marki sem hámarksleiðrétting setur. Þeir sem þegar hafa fengið leiðréttingar sem nema meira en 4 milljónum fá ekki frekari niðurfærslu á höfuðstól en geta samt nýtt sér skattfrjálsan séreignarlífeyrissparnað til að greiða niður lánið.

66 þúsund fengu sérstakar vaxtabætur

Á árunum 2011 og 2012 var greidd sérstök niðurgreiðsla vaxta sem nam 0,6% af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Niðurgreiðslan gat hæst orðið 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum, sambúðarfólki og einstæðu foreldri hvort ár. 66 þúsund heimili fengu þessar greiðslur á sínum tíma, en heildarupphæðin var tæplega 6 milljarðar vegna ársins 2012 og svipuð upphæð vegna ársins 2011.

Þessar vaxtabætur fóru inn á reikning til fólks til frjálsra afnota. Sú leiðrétting sem kynnt var um helgina fer hins vegar beint í að lækka höfuðstól lánsins. Fólk fær því þessa peninga ekki beint í hendur.

Almennar vaxtabætur hafa hins vegar ekki áhrif á þá leiðréttingu sem kynnt var um helgina. Þær verða greiddar út áfram en gera má ráð fyrir að stofn til greiðslu vaxtabóta lækki við leiðréttinguna.

47 milljarðar í 110% leiðinni koma til frádráttar

Í gegnum 110% leiðina, sem fyrri ríkisstjórn tók ákvörðun um, voru afskrifaðir samtals 47 milljarðar. Hámarks niðurfelling skulda í gegnum þessa leið var 7 milljónir. Í skýrslu um leiðréttinguna, sem kynnt var um helgina, segir að þeir sem skulduðu mest hafi fengið mesta lækkun í gegnum þessa leið, en þeir sem skulduðu t.d. á bilinu 100-110% af verðmæti húsnæðis hafi ekki fengið neitt.

Gert er ráð fyrir að sú skuldalækkun sem fólk fékk í gegnum 110% leiðina komi til frádráttar þeirri leiðréttingu sem á að koma til framkvæmda á næsta ári. Það þýðir t.d. að þeir sem fengu meira en 4 milljónir niðurfelldar fá ekkert núna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert