Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, hefur lagt fram fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um tillögur ríkisstjórnarinnar til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Fer Árni Páll fram á sundurliðun á því hverjum aðgerðirnar gagnist mest.
Árni Páll óskar skriflegs svars við fyrirspurninni sem er í níu liðum.
Í fyrsta lagi spyr Árni Páll hversu stór hluti fyrirhugaðrar niðurfærslu lendir hjá framteljendum þar sem skuldahlutfall (hlutfall húsnæðisskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis) miðað við framtal er undir 100%.
„Hversu stór hluti lendir hjá framteljendum með undir 80% sem er algengt lánshlutfall nú? Hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim þar sem skuldahlutfall er undir 50%? Óskað er sundurliðunar á upphæð niðurfellingar og fjölda heimila sem fá niðurfellingu eftir tíundahlutum skuldahlutfalls (0–10%, 10–20%, o.s.frv.),“ skrifar Árni Páll í fyrirspurninni.
Hvað falla margir undir 20% tekjuviðmið?
Í öðru lagi spyr hann hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá framteljendum þar sem greiðslubyrði er undir 20% af tekjum sem sé algengt viðmið nú við veitingu húsnæðislána.
Í þriðja lagi spyr hann hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim framteljendum sem hafa tekjur yfir meðallagi. „Hversu stór hluti lendir hjá þeim sem hafa tekjur í efsta fimmtungi tekjuskattsstofns? Óskað er sundurliðunar á upphæð niðurfellingar og fjölda heimila sem fá niðurfellingu eftir tíundum tekjubila (0–10%, 10–20%, o.s.frv.),“ skrifar Árni Páll.
Hverjar eru skuldirnar að meðtali?
Í fjórða lagi spyr Árni Páll hversu margir af þeim þar sem skuldahlutfall er yfir 100% komast undir 100% með niðurfærslunni. „Hvert er meðaltalsskuldahlutfall þeirra sem eru yfir 100% fyrir og eftir aðgerð?“ spyr hann.
Í fimmta lagi spyr Árni Páll hversu margir af þeim sem eru með greiðslubyrði yfir 20% af ráðstöfunartekjum komast undir 20% með niðurfærslunni. Hann spyrt hver sé meðaltalsgreiðslubyrði þeirra sem eru með 20% eða hærri greiðslubyrði fyrir og eftir aðgerðina.
Í sjötta lagi spyr formaður Samfylkingarinnar hversu margir af þeim sem eru með greiðslubyrði yfir 30% af ráðstöfunartekjum komast undir 30% með niðurfærslunni.
Hvað eru margir í alvarlegum skuldavanda
Í sjöunda lagi spyr hann hversu margir eru í alvarlegum skuldavanda, þ.e. með skuldir umfram 100% virði íbúðarhúsnæðis. „Hversu miklar eru skuldir þeirra umfram 100% í fjárhæðum? Hvað eru þeir með stóran hluta húsnæðisskuldanna? Hvernig dreifist þessi hópur á tekjuskalann? Hversu margir í þessum hópi eru með greiðslubyrði umfram 20% af tekjum?“ spyr Árni Páll.
Í áttunda lagi spyr hann hvað margir séu í greiðsluvanda, t.d. með greiðslubyrði umfram 30% af tekjum. „Hvernig er skuldsetning þeirra, meðalskuld, skuldir í hlutfalli við fasteignamat íbúðarhúsnæðis?“ spyr formaðurinn.
Í níunda og síðasta lagi spyr Árni Páll hvort skuldavandinn sé mismunandi eftir fjölskylduformi, mælt miðað við skuldahlutfall og greiðslubyrði. „Hverju breyta boðaðar aðgerðir þar um?“ spyr Árni Páll Árnason í fyrirspurninni til forsætisráðherra.
Fyrirspurnina má nálgast hér.