Úrkoma í Reykjavík mældist 92,7 mm í nóvember sem er um 28 prósent umfram meðallag. Úrkoma var yfir meðallagi um mestallt land nema á Norðurlandi austanverðu þar sem hún var heldur minni en í meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík var 2,2 stig sem er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ár.
Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig að sólskin í Reykjavík mældist í 35,4 stundir, 3 stundum færri en í meðalári. Þá var alhvítt í Reykjavík fimm daga og er það tveimur dögum undir meðallagi áranna 1971 til 2000.
Meðalhiti á Akureyri var 0,5 stig, það er 0,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti 1,6 stig, 0,7 stigum ofan meðallags 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,9 stig og -4,0 á Hveravöllum.
Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 4,4 stig, og 3,9 á Garðskagavita. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -6,1. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -3,6 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga hinn 26., 20,2 stig. Á mannaðri stöð mældist hitinn hæstur 19,0 stig þann 27. á Dalatanga.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -22,5 stig á Brúarjökli þann 9. Í byggð mældist lægsti hiti -20,0 stig við Mývatn og á Grímsstöðum á Fjöllum 18. og á Grímsstöðum 10. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -19,5 stig í Stafholtsey þann 9. og 10.
Hitinn á Dalatanga 27. er nýtt landsdægurmet (hæsti hámarkshiti 27. nóvember). Eldra met var frá Skjaldþingsstöðum árið 1994, 14,5 stig.
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins 2013 er 5,44 stig, það er 0,7 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990. Árið, það sem af er, er í 30. til 32. sæti hlýrra ára í Reykjavík (af 143), en það þriðja kaldasta á þessari öld (af 13). Á Akureyri er meðalhitinn á sama tíma 4,57 stig og er það 0,5 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, það fimmta kaldasta á þessari öld.