„Stelpurnar króuðu mig af, hrintu mér og kýldu mig í andlitið. Strákarnir gerðu ekki neitt til að hjálpa mér. Stelpurnar drógu mig á hárinu og hræktu á mig.“ Þannig lýsir 22 ára kona líkamsárás sem hún varð fyrir í Hafnarfirði fyrir þremur árum, en aðalmeðferð i málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Þrjár stúlkur voru ákærðar fyrir árásina, en ákæra gegn einni þeirra var dregin til baka. Einn piltur var líka ákærður en hann ók bíl með stúlkunum að hraðbanka þar sem peningar voru teknir af korti stúlkunnar sem varð fyrir árásinni.
Stúlkurnar þrjár voru 16-18 ára þegar árásin átti sér stað. Sú sem fyrir árásinni varð var 19 ára.
Flestir sem ákærður eru í málinu mundu lítið eða ekki neitt frá árásinni þegar þau mættu fyrir dómara í dag. Þau báru fyrir sig að langt væri liðið frá atburðinum og eins hefðu þau verið drukkin eða undir áhrifum fíkniefna þetta kvöld.
Stúlkan sem fyrir árásinni varð fór í samkvæmi í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði ásamt vinkonum sínum þetta kvöld. Mikil drykkja var í samkvæminu og mætti lögregla á staðinn um nóttina til að stöðva partíið. Eftir að hún var farin kom hins vegar til átaka. Stúlkan segir að sparkað hafi verið í bakið á sér og sér hrint niður stiga. Hún segist telja að hún hafi verið heppinn að deyja ekki við þetta fall.
Eftir að hafa fallið niður stigann náði stúlkan að hringja í pabba sinn og biðja hann að koma og ná í sig. Hún segir að stúlkurnar hafi síðan tekið af sér símann og greiðslukort og haldið áfram að veitast að sér utan við húsið. Hún hafi verið kýld í andlitið, dregin á hárinu og hrækt hafi verið á sig og helt yfir sig áfengi. Hún hafi einnig verið barin með spýtum. „Ég reyndi að hlaupa en var bara föst,“ sagði stúlkan fyrir dómi.
Stúlkan segir að ein stúlka hafi lagt hníf við höndina á sér og krafist þess að hún léti sig frá greiðslukort og pin-númer. „Ég var bara hrædd og þorði ekki annað en að láta þær fá kortið.“
Faðir stúlkunnar sem fyrir árásinni varð bar vitni í héraðsdómi. Hann segist hafa verið búinn að segja við dóttur sína að ef hún næði ekki leigubíl skyldi hún hringja í sig. Hann hafi síðan fengið símhringingu frá dóttur sinni kl. 5-6 um nóttina. Hún hafi náð að gefa upp heimilisfang í Hafnarfirði.
Þegar maðurinn, sem býr í Grafarvogi, var hálfnaður á leiðinni fékk hann símhringingu frá stúlku í partíinu sem sagði að það væru stúlkur á leiðinni til að drepa dóttur hans. Maðurinn hafði strax samband við lögreglu og hraðaði för.
„Þegar ég kem á staðinn er hópur í kringum dóttur mína. Það hlaupa allir í burtu þegar þeir sjá bílljósin. Ég sá síðan dóttur mína, sem var öll í blóði,“ sagði maðurinn.
Stúlkurnar tvær sem ákærðar eru í málinu sögðu báðar að þær hefðu tekið sig á í lífinu eftir að þessa atburði. Báðar eiga börn og önnur þeirra er ófrísk af sínu öðru barni.
Lögreglumaður sem kom fyrir dóminn sagði að eitt vitnið í málinu hefði óskað eftir að bera vitni undir nafnleynd. Viðkomandi hefði sagst að sér hefði verið hótað og hún óttast afleiðingar ef hún kæmi fram undir nafni. Lögreglumaðurinn sagði að framburður þessa vitnis hefði verið lykilgagn í málinu. Hann sagði að upphaflega hefðu tvær sem voru ákærðar neitað allri sök hjá lögreglu og raunar neitað því að hafa verið á staðnum þó að símanotkun benti til annars.
Önnur stúlkan, sem ákærð er fyrir líkamsárás, rán og hótanir, játaði sök fyrir dómi í dag, en sagðist hins vegar ekkert muna eftir atburðinum. Hin játaði að hluta, en sagðist ekki hafa tekið þátt í árásinni og raunar aðeins reynt að stilla til friðar. Hún fór hins vegar með í bílferð sem farin var til að taka út peninga af korti stúlkunnar.