„Þetta eru hræðilegar niðurstöður. Fyrir börnin okkar, atvinnulíf framtíðarinnar og framtíð þjóðarinnar,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld um niðurstöður nýjustu PISA-rannsóknarinnar um læsi grunnskólabarna en þar kemur meðal annars fram að 30% drengja geta ekki lesið sér til gagns við lok grunnskólans.
„Mest um vert er að bæta lestrarkennslu. Sá sem kann ekki að lesa sér til skilnings getur ekki lært allt hitt: stærðfræði (aðallega orðadæmi), tungumál, náttúrufræði o.fl. Við verðum að einbeita okkur að lestrarkennslunni: Að öll átta ára börn kunni að lesa með talhraða, réttum áherslum og fullum skilningi nema eitthvað náttúrulegt hamli. Ábyrgð beri skólastjóri,“ segir þingmaðurinn ennfremur.