Hættir við einhliða og án fyrirvara

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins. Skjáskot/EbS Channel

Stækkunarskrifstofa Evrópusambandsins hefur tekið einhliða ákvörðun og án fyrirvara um að hætta öllum svokölluðum IPA-verkefnum sem hafin voru hér á landi í tengslum við umsóknina um inngöngu í sambandið. Fram kemur í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að framkvæmdastjórn ESB ætli að segja upp samningum í þeim efnum með tveggja mánaða fyrirvara og að bréf þess efnis verði send út á næstu dögum.

„Í erindi sínu til íslenskra stjórnvalda vísar framkvæmdastjórnin til þess að IPA aðstoð við Ísland hafi verið ætlað að styðja við verkefni sem ráðast þyrfti í vegna áforma um aðild að ESB. Í ljósi breyttrar stefnu stjórnvalda, telji hún ekki vera forsendur fyrir frekari styrkveitingum. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lýst vilja til þess að þau verkefni sem hafin eru verði leidd til lykta samkvæmt gerðum samningum. Um það virtist ríkja samstaða,“ segir ennfremur í tilkynningu ráðuneytisins.

ESB ítrekað gefið annað til kynna

Þá segir að í samræmi við niðurstöðu fundar stækkunarstjóra ESB og Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í júní síðastliðnum hafi fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í sumar og haust farið ofan í saumana á hverju verkefni fyrir sig. Fyrir liggi að styrkþegar hafi í öllum tilvikum staðið við gerða samninga og að mati eftirlitsmanna framkvæmdastjórnarinnar uppfyllt kröfur um framvindu verkefnanna.

„Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur Íslendingum í opna skjöldu, sérstaklega þegar til þess er litið að framkvæmdastjórnin hefur á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að ESB myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar,“ segir í tilkynningunni.

Ekki til þess fallið að bæta samskiptin

Ennfremur segir að utanríkisráðuneytið hafi komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og að utanríkisráðherra telji að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við. „Í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB er þessi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg og ekki til þess fallin að styrkja samband aðila.“

Fram kemur að helstu verkefnin sem um ræðir séu eftirfarandi: Verkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands um uppbyggingu á NATURA 2000 samstarfsneti á Íslandi og innleiðing vistgerða- og fuglatilskipana ESB, verkefnið Katla jarðvangur á vegum Háskólafélags Suðurlands, verkefni á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem felst í víðtækum aðgerðum til að efla menntunarstig og atvinnu, verkefni á vegum Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert