„Þrátt fyrir fundurinn hafi kannski ekki gert kraftaverk þá létum við heyra í okkur, létum vita að okkur er ekki sama og við erum mjög ánægð með það,“ segir Alda Áskelsdóttir, einn skipuleggjanda borgarafundar um stöðu framhaldsskólanna í Hafnarfirði. Fundurinn var vel sóttur og hiti í fundargestum.
Meðal þeirra sem fluttu erindi á fundinum var Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Hann svaraði svo í kjölfarið spurningum úr sal. Alda segir að eflaust hefði verið betra að hafa lengri tíma enda án efa margar spurningar sem brunnu inni. „Það sem við fengum frá menntamálaráðherra var það, að hann veit að skólarnir eiga við rekstrarvanda að stríða og hann veit að það er of lítill peningur í menntakerfinu. Þegar fjárlögin verða orðin hallalaus ætlar hann að bæta peningum í framhaldsskólakerfið.“
Hún segir að hann hafi viðurkennt að of litlu fjármagni sé dreift til skólanna en að skólarnir verði að lifa við það þar til ríkissjóður verður rekinn án halla.
Alda segir að á fundinn hafi einnig komið fólk frá öðrum skólum en Flensborg og Iðnskólanum í Hafnarfirði. Skipuleggjendur vonist því til að fleiri sambærilegir fundir verði haldnir og fleiri láti heyra í sér.
Í fundarboði kom fram að í Flensborg sé verið að leggja niður allt verklegt nám og segja upp kennurum. Iðnskólinn standi á sama tíma frammi fyrir því að þurfa að skera niður um fimmtíu milljónir og segja upp kennurum. Í mörg ár hafi verið hagrætt í rekstri skólanna en það sé ekki lengur hægt og því blasi við „blóðugur og sársaukafullur niðurskurður“.