Umsóknin í raun send til baka

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi ákvörðun felur í raun það í sér að Evrópusambandið er að senda til baka umsókn Íslands um inngöngu í sambandið,“ segir Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og varaformaður Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Vísar hann þar til ákvörðunar sambandsins um að hætta við svokallaða IPA-styrki til Íslands vegna umsóknarinnar.

Jón segir að ákvörðun Evrópusambandsins undirstriki það sömuleiðis sem alltaf hafi legið fyrir að IPA-styrkirnir hefðu verið tengdir umsókninni og hugsaðir til þess eins að aðlaga Ísland að sambandinu. Það hefði aldrei átt að taka við styrkjunum og eins hefði átt að afþakka þá strax eftir þingkosningarnar í vor.

„Það liggur því beinast við að ríkisstjórnin og Alþingi klári málið og afturkalli umsóknina enda var þjóðin aldrei spurð að því hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið eða ekki. það er ekki eftir neinu að bíða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert