Rúmur helmingur þátttakenda í nýrri netkönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands kveðst vera mjög eða frekar ánægður með boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til höfuðstólslækkunar íbúðalána.
Könnunin var gerð fyrir Morgunblaðið í kjölfar þess að aðgerðaráætlunin var kynnt sl. laugardag.
Alls tóku 811 einstaklingar þátt í könnuninni og gáfu þar af 673 upp afstöðu sína til þess hvort þeir væru ánægðir eða óánægðir með aðgerðirnar. Af þeim sem svöruðu spurningunni sögðust rúm 52% mjög eða frekar ánægð með aðgerðirnar, að því er fram kemur í úttekt á niðurstöðum könnunarinnar í Morgunblaðinu í dag.