Námslán 31% styrkur að meðaltali

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alveg hárrétt sem fram kom í fyrirspurn háttvirts þingmanns að ekki falla öll verðtryggð lán undir þá aðgerð sem kynnt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána. Í þeim tillögum var því ekki gert ráð fyrir því að námslán, sem eru verðtryggð, verði færð niður til að mæta verðbólguþróuninni.“

Þetta sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. Spurði hún hvort ráðherrann hefði falið stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) það verkefni að finna leiðir til þess að færa niður höfuðstól verðtryggðra námslána. Sagði hún ekkert jafnræði felast í því að færa niður höfuðstól verðtryggðra íbúðalána en ekki verðtryggð námslán.

Illugi sagði rétt að hafa í huga í umræðunni um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar og námslán að námslánin væru í raun og veru niðurgreidd. Í þeim fælist styrkur með beinum hætti sem samkvæmt upplýsingum frá LÍN væri 31% af láni meðalnámsmannsins. Þá væri innbyggður í endurgreiðslu námslána sveigjanleiki sem tengist launum sem væri nokkuð ólíkt þeim lánum sem sneru að íbúðahúsnæði.

„Ég mun væntanlega eiga fund með formanni stjórnar Lánasjóðsins í næstu viku. Ég mun ræða stöðuna við hann en ég ætla að leyfa mér að segja að ég tel að það hefði þurft að taka ákvörðun um það á þeim vettvangi þar sem ákvörðunin um niðurfærsluna á íbúðalánunum var tekin, þ.e. hina almennu aðgerð. Þar sem ekki var tekin ákvörðun um það þar þá sé ég varla að Lánasjóðurinn verði fær um það einn og sér að taka námslánin eða fella niður verðbætur á námslánunum að einhverjum hluta. Ég held að sjóðurinn sé ekki fær um að gera það,“ sagði ráðherrann ennfremur en varaði við bjartsýni í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert