Reyna að láta ESB slíta viðræðunum

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

„Stjórnarflokkarnir keppast nú við að reyna að fá ESB til að slíta aðildarviðræðum, því þeir treysta sér ekki til stefnumörkunar um framtíðartengsl Íslands og Evrópu. Þetta væri beinlínis fyndið, ef málið snerist ekki um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hann minnir á að skýr vilji Evrópusambandsins og helstu stofnana þess liggi fyrir um að halda viðræðunum um inngöngu Íslands í sambandið áfram. „Stækkunarstjórinn sagði við mig nýverið og hefur sagt opinberlega að Ísland sé enn umsóknarríki og að á meðan Ísland dragi ekki umsóknina til baka muni hann greina frá stöðu aðildarviðræðna í reglulegum skýrslum sínum til þingsins um framgang aðildarviðræðna einstakra ríkja.“

Fyrir vikið sé kafli um Ísland í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins og þess vegna hafi Evrópuþingið staðfest í þarsíðustu viku að það telji Ísland áfram umsóknarríki. „Því miður fyrir hina huglausu og stefnulausu ríkisstjórn: Þið getið ekki kennt öðrum um. Þið verðið sjálfir að standa skil á eigin orðum og gerðum og afleiðingum þeirra. Þið verðið sjálfir að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef þið viljið ekki halda aðildarviðræðum áfram, þótt þið óttist vilja þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka