„Ég held að það hafi enga þýðingu að stokka upp einu sinni enn og betra færi ef þessir flokkar létu af stjórnlyndisstefnu og gamaldags vinstripólitík,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.
Gerir hann þar að umtalsefni ummæli Lilju Mósesdóttur, fyrrverandi alþingismanns, nýverið þess efnis að nauðsynlegt sé að stokka upp vinstrivæng íslenskra stjórnmála eftir stjórnartíma vinstristjórnarinnar á síðasta kjörtímabili.
„Lilja Mósesdóttir talaði um nauðsyn uppstokkunar á vinstrivæng stjórnmálanna eftir fjögurra ára stjórnartíð þeirra, svo hræðilega hefði vinstristjórnin staðið sig. Nú er ég rúmlega hálfrar aldar gamall og man ekki betur en á þeim væng hafi alla mína tíð verið stanslaus uppstokkun.“