Broadway breytt í læknamiðstöð

Ásdís Halla Bragadóttir
Ásdís Halla Bragadóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Broadway verður breytt í lækna- og heilsumiðstöð og Park Inn hótel þróast í heilsuhótel. Þetta er meðal þess sem verður kynnt á blaðamannafundi síðar í dag. Um rúmlega tveggja milljarða króna fjárfestingu er að ræða.

Á fundinum verða Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVA consortium ehf. og heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson en þau munu kynna breytingarnar sem gerðar verða á húsnæðinu.

Park Inn hótel hét áður Hótel Ísland en nýverið eignaðist Arion banki Hótel Ísland sem var dótturfélag Hótels Sögu. Er það hluti af samningum um skuldir Hótels Sögu sem er í eigu Bændasamtaka Íslands.

Sinnum, sem er í eigu EVA consortium, rekur sjúkrahótel á Park Inn en fyrirtækið fékk verkefnið eftir útboð. Samningur var gerður til tveggja ára sem unnt er að framlengja í eitt ár í senn. Sinnum sér um rekstur hótelsins, m.a. matargerð og þrif, en Landspítalinn sér um hjúkrunarþjónustuna.

Hluthafar í EVU ehf. eru Gekka ehf. sem er í eigu Ásdísar Höllu Bragadóttur og Aðalsteins Jónassonar og Flösin ehf. sem er í eigu Ástu Þórarinsdóttur og Gunnars Viðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert