Búast má við miklu frosti á landinu fram eftir degi á morgun og éljagangi og skafrenningi norðan- og norðaustantil fram á kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu. Það sem af er degi er hlýjast á Önundarhorni þar sem frostið er tæpar fjórar gráður en kaldast á Mörk á Landi þar sem það er tæplega nítján stig.
Á Hellu hefur frostið farið í 18,6 gráður og 18,7 gráður í Árnesi. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er rúmlega tólf stiga frost í Reykjavík
Norðlæg átt, 5-10 m/s en 13-20 A- og SA-til fram á kvöld. Austlæg átt, 5-13 á morgun en hægari breytileg átt NA-til. Él og skafrenningur norðantil en skýjað með köflum syðra. Hvessir syðst á morgun og fer að snjóa syðst annað kvöld en hægari og úrkomuminna N- og A-til. Frost víða 5 til 15 stig, kaldast inn til landsins.
Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á vegum. Verið er að opna Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.
Talsverð ofankoma er á Norðurlandi og vetrarfærð. Það er stórhríð á kafla frá Húsavík og inn Reykjahverfi. Þungfært er á Hólasandi og Dettifossvegi. Sandvíkurheiði er ófær.
Nokkur hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi og víða skafrenningur. Vatnsskarð eystra er ófært og þar er óveður. Autt er frá Reyðarfirði með ströndinni suður um að Kirkjubæjarklaustri.