Frostið fjórar gráður þar sem er hlýjast

Það er eins gott að búa sig vel áður en …
Það er eins gott að búa sig vel áður en haldið er út í kuldann. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Búast má við miklu frosti á landinu fram eftir degi á morgun og éljagangi og skafrenningi norðan- og norðaustantil fram á kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu. Það sem af er degi er hlýjast á Önundarhorni þar sem frostið er tæpar fjórar gráður en kaldast á Mörk á Landi þar sem það er tæplega nítján stig.

Á Hellu hefur frostið farið í 18,6 gráður og 18,7 gráður í Árnesi. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er rúmlega tólf stiga frost í Reykjavík

Norðlæg átt, 5-10 m/s en 13-20 A- og SA-til fram á kvöld. Austlæg átt, 5-13 á morgun en hægari breytileg átt NA-til. Él og skafrenningur norðantil en skýjað með köflum syðra. Hvessir syðst á morgun og fer að snjóa syðst annað kvöld en hægari og úrkomuminna N- og A-til. Frost víða 5 til 15 stig, kaldast inn til landsins.

Það er eru hálkublettir á Reykjanesbraut og Suðurnesjum, hálka er á Hellisheiði en vetrarfærð, hálka, hálkublettir eða snjóþekja, er á Suðurlandi líkt og í flestum landshlutum. Víða snjóar, einkum á Norðurlandi. Mikið er að taka upp með ströndinni um sunnanvert landið og orðið alveg autt frá Klaustri austur á Reyðarfjörð.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á vegum. Verið er að opna Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Talsverð ofankoma er á Norðurlandi og vetrarfærð. Það er stórhríð á kafla frá Húsavík og inn Reykjahverfi. Þungfært er á Hólasandi og Dettifossvegi. Sandvíkurheiði er ófær.

Nokkur hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi og víða skafrenningur. Vatnsskarð eystra er ófært og þar er óveður. Autt er frá Reyðarfirði með ströndinni suður um að Kirkjubæjarklaustri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka