Öll heilbrigðisþjónusta á einum stað

Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVA consortium ehf., og Kristján Þór …
Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVA consortium ehf., og Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Golli

„Eva hafði mjög stóra drauma strax í byrj­un en ég verð að segja það og viður­kenna að þetta er lang­stærsti dag­ur­inn í sögu fyr­ir­tæk­is­ins,“ sagði Ásdís Halla Braga­dótt­ir, stjórn­ar­formaður EVA consorti­um ehf., á blaðamanna­fundi í dag þar sem hún greindi frá þeim áform­um fyr­ir­tæk­is­ins að breyta skemmti­staðnum Broadway í Reykja­vík í lækna- og heilsumiðstöð og þróa hót­elið Park Inn í sömu bygg­ingu í að verða heilsu­hót­el.

Fjár­fest­ing­in hljóðar upp vel yfir tvo millj­arða króna. Fyr­ir­tækið hef­ur rekið sjúkra­hót­el í húsa­kynn­um Park Inn en þegar Ari­on banki tók yfir rekst­ur þess ný­verið var leigu­samn­ing­um vegna sjúkra­hót­els­ins sagt upp. Ásdís sagði að þá hefði verið ákveðið að láta á það reyna að láta þriggja ára draum ræt­ast og út­víkka starf­sem­ina í hús­inu í átt að víðtæk­ari þjón­ustu á heil­brigðis­sviði.

„Þannig að sú vinna sem erum búin að vera að vinna núna und­an­far­in þrjú ár, að þróa þetta hús yfir í stærsta lækna- og heilsumiðstöð á höfuðborg­ar­svæðinu alls 9 þúsund fer­metr­ar, er núna að verða að veru­leika með því að Eva hef­ur fest kaup á þess­ari fast­eign af Ari­on banka,“ sagði hún enn­frem­ur. Hót­elið væri alls 119 her­bergi en af þeim væri fyr­ir­tækið þegar að nýta 65 her­bergi fyr­ir sjúkra­hót­elið.

Stærsta lækna- og heilsumiðstöð lands­ins

„Stærsta breyt­ing­in til þess að gera þetta að stærstu lækna- og heilsumiðstöð lands­ins er sú að Broadway, sem sum­ir eiga sæl­ar minn­ing­ar frá, þess­um 4 þúsund fer­metr­um verður breytt í lækna- og heilsukjarna. Hér verður á þrem­ur hæðum ýmis kon­ar lækn­isþjón­usta og heils­u­starf­semi. Við ætl­um hérna í raun og veru að tryggja að ein­stak­ling­ur sem labb­ar hérna inn og er að glíma við ein­hverja til­tekna kvilla geti fengið allt það sem hann þarf hér í þess­ari þjón­ustu,“ sagði Ásdís. Þjón­ust­an verði í boði all­an sól­ar­hring­inn.

Þar væri ekki aðeins um að ræða sér­fræðilækna held­ur ýmis kon­ar hjúkr­un­arþjón­ustu, aðhlynn­ingu, stuðning, ráðgjöf, nær­ingu, lífstíls­breyt­ing­ar, end­ur­hæf­ingu, hreyf­ingu og svo fram­veg­is. „Við von­um að það feli það í sér að fjöl­marg­ir aðilar sem eru nú þegar að veita ýmis kon­ar heilsuþjón­ustu hér og þar um höfuðborg­ar­svæðið geti litið á þetta sem sam­eig­in­leg­an vett­vang til að styrkja sína þjón­ustu, veita heild­stæðari, víðtæk­ari og fag­legri þjón­ustu til ein­stak­linga sem að þurfa ýmis kon­ar heilsu­úr­ræði.“

„Svo erum við í fyrsta sinn að geta boðið upp á að fólk komi og sæki slíka heilsuþjón­ustu og geti verið í ein­hvern tíma í næsta ná­grenni við þá þjón­ustu í kall­færi við sér­fræðing­ana hér á hót­el­inu. Og við sjá­um það á sjúkra­hót­el­inu að þetta skipt­ir ekki síst máli fyr­ir fólk af lands­byggðinni,“ sagði hún enn­frem­ur. Fólk sem komi þaðan geti þannig sótt alla heil­brigðisþjón­ustu á ein­um og sama staðnum.

Broadway end­ur­skipu­lag frá grunni

Ásdís Halla sagði að mikl­ar breyt­ing­ar yrðu gerðar á Broadway. Hús­næðið yrði end­ur­skipu­lag frá grunni til þess að geta sinnt því nýja hlut­verki sem því væri ætlað. Meðal ann­ars varðandi aðgengi. Park Inn yrði að hluta til áfram nýtt sem hót­el fyr­ir er­lenda og inn­lenda ferðamenn í sam­starfi við fyrri rekstr­araðila þess. „Við höf­um verið með mjög mikið af er­lend­um sjúk­ling­um, aðallega frá Fær­eyj­um sem hafa komið hingað en líka frá ýms­um öðrum þjóðum.“

Sagði hún fyr­ir­tækið sjá mik­il tæki­færi þegar kæmi að þjón­ustu við er­lenda sjúk­linga. Ætl­un­in væri að sækja meira fram í ís­lenskri heil­brigðisþjón­ustu með ýmis kon­ar ný­sköp­un og von­ir stæðu til þess að fyr­ir­huguð lækna- og heilsumiðstöð, þar sem marg­ir aðilar gætu unnið sama, gæti verið nýr vett­vang­ur fyr­ir ný­sköp­un í ís­lenska heil­brigðis­kerf­inu.

Kristján Þór Júlí­us­son, heil­brigðisráðherra, ávarpaði fund­inn og óskaði aðstand­end­um Evu til ham­ingju með áfang­ann. Hann sagði mik­ils um vert að eiga ein­stak­linga sem þorðu að leggja í hann og taka slag­inn. Sagði hann aðstand­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins hafa haslað sér völl á viðkvæmu sviði í sam­fé­lag­inu, í vel­ferðarþjón­ustu, og sinnt því verki mjög vel. „Ég vænti þess og vona að þetta frum­kvæði, þetta verk­efni, verði til þess að við sjá­um auk­in gæði, fag­mennsku, ný­sköp­un á því sviði sem all­ir Íslend­ing­ar tengj­ast. Því að hvað sem um okk­ur ann­ars má segja í dag­legu lífi þá eig­um við það öll sam­eig­in­legt að fæðast inn í heil­brigðis­kerfið og við deyj­um þar líka. Þannig að við erum með því allt okk­ar líf.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert