„Eva hafði mjög stóra drauma strax í byrjun en ég verð að segja það og viðurkenna að þetta er langstærsti dagurinn í sögu fyrirtækisins,“ sagði Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVA consortium ehf., á blaðamannafundi í dag þar sem hún greindi frá þeim áformum fyrirtækisins að breyta skemmtistaðnum Broadway í Reykjavík í lækna- og heilsumiðstöð og þróa hótelið Park Inn í sömu byggingu í að verða heilsuhótel.
Fjárfestingin hljóðar upp vel yfir tvo milljarða króna. Fyrirtækið hefur rekið sjúkrahótel í húsakynnum Park Inn en þegar Arion banki tók yfir rekstur þess nýverið var leigusamningum vegna sjúkrahótelsins sagt upp. Ásdís sagði að þá hefði verið ákveðið að láta á það reyna að láta þriggja ára draum rætast og útvíkka starfsemina í húsinu í átt að víðtækari þjónustu á heilbrigðissviði.
„Þannig að sú vinna sem erum búin að vera að vinna núna undanfarin þrjú ár, að þróa þetta hús yfir í stærsta lækna- og heilsumiðstöð á höfuðborgarsvæðinu alls 9 þúsund fermetrar, er núna að verða að veruleika með því að Eva hefur fest kaup á þessari fasteign af Arion banka,“ sagði hún ennfremur. Hótelið væri alls 119 herbergi en af þeim væri fyrirtækið þegar að nýta 65 herbergi fyrir sjúkrahótelið.
Stærsta lækna- og heilsumiðstöð landsins
„Stærsta breytingin til þess að gera þetta að stærstu lækna- og heilsumiðstöð landsins er sú að Broadway, sem sumir eiga sælar minningar frá, þessum 4 þúsund fermetrum verður breytt í lækna- og heilsukjarna. Hér verður á þremur hæðum ýmis konar læknisþjónusta og heilsustarfsemi. Við ætlum hérna í raun og veru að tryggja að einstaklingur sem labbar hérna inn og er að glíma við einhverja tiltekna kvilla geti fengið allt það sem hann þarf hér í þessari þjónustu,“ sagði Ásdís. Þjónustan verði í boði allan sólarhringinn.
Þar væri ekki aðeins um að ræða sérfræðilækna heldur ýmis konar hjúkrunarþjónustu, aðhlynningu, stuðning, ráðgjöf, næringu, lífstílsbreytingar, endurhæfingu, hreyfingu og svo framvegis. „Við vonum að það feli það í sér að fjölmargir aðilar sem eru nú þegar að veita ýmis konar heilsuþjónustu hér og þar um höfuðborgarsvæðið geti litið á þetta sem sameiginlegan vettvang til að styrkja sína þjónustu, veita heildstæðari, víðtækari og faglegri þjónustu til einstaklinga sem að þurfa ýmis konar heilsuúrræði.“
„Svo erum við í fyrsta sinn að geta boðið upp á að fólk komi og sæki slíka heilsuþjónustu og geti verið í einhvern tíma í næsta nágrenni við þá þjónustu í kallfæri við sérfræðingana hér á hótelinu. Og við sjáum það á sjúkrahótelinu að þetta skiptir ekki síst máli fyrir fólk af landsbyggðinni,“ sagði hún ennfremur. Fólk sem komi þaðan geti þannig sótt alla heilbrigðisþjónustu á einum og sama staðnum.
Broadway endurskipulag frá grunni
Ásdís Halla sagði að miklar breytingar yrðu gerðar á Broadway. Húsnæðið yrði endurskipulag frá grunni til þess að geta sinnt því nýja hlutverki sem því væri ætlað. Meðal annars varðandi aðgengi. Park Inn yrði að hluta til áfram nýtt sem hótel fyrir erlenda og innlenda ferðamenn í samstarfi við fyrri rekstraraðila þess. „Við höfum verið með mjög mikið af erlendum sjúklingum, aðallega frá Færeyjum sem hafa komið hingað en líka frá ýmsum öðrum þjóðum.“
Sagði hún fyrirtækið sjá mikil tækifæri þegar kæmi að þjónustu við erlenda sjúklinga. Ætlunin væri að sækja meira fram í íslenskri heilbrigðisþjónustu með ýmis konar nýsköpun og vonir stæðu til þess að fyrirhuguð lækna- og heilsumiðstöð, þar sem margir aðilar gætu unnið sama, gæti verið nýr vettvangur fyrir nýsköpun í íslenska heilbrigðiskerfinu.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, ávarpaði fundinn og óskaði aðstandendum Evu til hamingju með áfangann. Hann sagði mikils um vert að eiga einstaklinga sem þorðu að leggja í hann og taka slaginn. Sagði hann aðstandendur fyrirtækisins hafa haslað sér völl á viðkvæmu sviði í samfélaginu, í velferðarþjónustu, og sinnt því verki mjög vel. „Ég vænti þess og vona að þetta frumkvæði, þetta verkefni, verði til þess að við sjáum aukin gæði, fagmennsku, nýsköpun á því sviði sem allir Íslendingar tengjast. Því að hvað sem um okkur annars má segja í daglegu lífi þá eigum við það öll sameiginlegt að fæðast inn í heilbrigðiskerfið og við deyjum þar líka. Þannig að við erum með því allt okkar líf.“