„Það mætti vera með skemmtilegri bækur í skólanum kannski,“ segir nemandi í 10. bekk Árbæjarskóla en lestrarframmistaða íslenskra unglinga hefur verið í umræðunni. Mbl.is ræddi við nokkra nemendur um lestur og viðhorf til lestrar og þau voru sammála um að þau væru ekki hrifin af Íslendingasögunum.
Þau Anna Sigríður, Magnús Ingi, Elvar Wang og Thelma Rún eru sammála um að finnast ótrúlegt að krakkar á þeirra aldri eigi erfitt með að lesa sér til gagns. Hinsvegar hafi unglingar almennt ekki áhuga á lestri og benda þau á hið augljósa: að tölvur og sjónvarpið eigi frekar upp á pallborðið í frítímanum. Hinsvegar sé námsefnið oft ekki til þess fallið að kveikja áhugann á lestri.