Ekki til í ESB-aðild sama hvað það kostar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

„Ég er til dæmis ekki til í aðild nema tryggt sé búið um ákveðna þjóðarhagsmuni. Þeir lúta til dæmis að því hvernig búið verður um hnúta í gjaldmiðilsmálum og möguleikum okkar til viðbragða við fjármálaáföllum og svo auðvitað um stjórnkerfi fiskveiða. Ég gæti ekki sagt í dag með óyggjandi og óafturkræfum hætti að ég vilji aðild að ESB ef aðildarsamningur verður ekki góður.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann gerir að umtalsefni nýleg ummæli Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, þess efnis að ef kosið yrði um Evrópumálin í þjóðaratkvæði ætti að greiða atkvæði um það hvort ganga eigi í Evrópusambandið en ekki hvort halda eigi viðræðum við það áfram um inngöngu. Árni segir ekki hægt að taka afstöðu til inngöngu eins og staðan sé í dag. Hann sakar ennfremur Sjálfstæðisflokkinn um svik við kjósendur.

„Svikin felast í því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort haldið yrði áfram með aðildarumsóknina og lagði meira að segja fram tillögur um það efni á Alþingi. Þá var það semsagt rökrétt afstaða, að áliti forystu flokksins. Viðsnúningur Illuga í þessu máli er eðlislíkur viðsnúningi Sjálfstæðisflokksins í skuldamálunum,“ segir Árni Páll.

Fyrir kosningar hafi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagt alveg skýrt að ekki kæmi til greina að ríkið tæki á sig kostnað af skuldalækkunum einstaklinga. „Nú boðar hann aukningu ríkisútgjalda um 80 milljarða með allsherjarríkisvæðingu vandans,“ segir Árni ennfremur og sakar flokkinn um að gera hvað sem er til þess að halda völdum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert