Brottfluttir bera skarðan hlut frá lækkunarborðinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynntu tillögurnar …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynntu tillögurnar í Hörpu. Ómar Óskarsson

Þeir sem hafa greitt upp húsnæðislán sín og hafið störf í nýju landi, og greiða ekki skatta á Íslandi, hafa ekki möguleika á að endurheimta hluta af þeirri hækkun sem varð á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána þeirra á árunum 2007-2010, miðað við tillögur sérfræðingahóps um lækkun húsnæðisskulda. Það gætu þeir á hinn bóginn ef þeir byggju hér enn og störfuðu.

Þetta staðfestir Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahópsins.

Í tillögum sérfræðingahópsins kemur fram að þeir sem hafa greitt upp verðtryggð lán eigi að njóta lækkunarinnar með þeim hætti að þeir fá skattaafslátt sem þeir geta nýtt á fjórum árum. Sigurður segist gera ráð fyrir að skattaafslátturinn verði í formi endurgreiðslu sem verði gerð upp við álagningu ríkisskattastjóra í ágúst.

Ekki brot á jafnræðisreglum

Í samtali við Morgunblaðið benti Sigurður á að þeir sem hefðu greitt upp verðtryggð lán en skulduðu enn í húsnæði til eigin nota, myndu fá höfuðstól núverandi húsnæðislána lækkaðan, hvort sem lánin væru verðtryggð eða óverðtryggð. Ef þeir hefðu á hinn bóginn greitt upp öll húsnæðislán og væru skuldlausir að því leyti, myndu þeir fá leiðréttingu í gegnum skattkerfið, þ.e. með skattaafslætti.

Í kjölfar hrunsins haustið 2008 fluttu margir Íslendingar utan í leit að vinnu og bjartari framtíð. Óhætt er að gera ráð fyrir að einhverjir þeirra hafi selt hús sín og greitt upp þær skuldir sem á þeim hvíldu áður en þeir fluttu út.

Aðspurður sagði Sigurður að þeir sem væru að störfum ytra og greiddu skatt þar, en ekki á Íslandi, gætu ekki nýtt sér skattaafslátt sem þeir fengju hér á landi, yrði tillögunum hrint í framkvæmt. Ekki væri heldur greitt inn á höfuðstól lána sem hefðu verið tekin til kaupa á húsnæði erlendis.

Tillögur sérfræðingahópsins gagnast þessum hóp því ekki, þótt hann hafi orðið fyrir jafn miklu tjóni af völdum verðbólguskotsins 2007-2010 og þeir sem enn búa hér.

Á sama hátt geta þeir sem vinna erlendis og borga þar skatta ekki greitt inn á húsnæðisskuldir hér á landi í stað þess að greiða í séreignasjóð.

Sigurður bendir á að það séu hagfræðileg rök fyrir því að greiða ekki út reiðufé til að bæta hlut þeirra sem hafa greitt upp skuldir, það auki m.a. þenslu í samfélaginu. Þess vegna hafi verið farin sú leið að veita inneign hjá skattinum. „Það eru jafnræðissjónarmið fyrir því að allir sitji við sama borð, að það sé ekki hópur sem fái útgreitt í reiðufé á meðan aðrir þurfa að taka þetta út í gegnum skattinn,“ segir hann. „Þetta nýtist ekki fólki nema það greiði hér skatta en allir eiga þessi réttindi,“ segir hann.

Úrskurða um vafamál

Benda má á að frumvörp sem eiga að hrinda tillögum sérfræðingahópsins í framkvæmd hafa ekki litið dagsins ljós og hugsanlega munu þau taka á annan hátt á hagsmunum þeirra hópa sem rætt er um hér að ofan.

Þar að auki er rétt að benda á að sérfræðingahópurinn leggur til að sett verði á laggirnar úrskurðarnefnd sem á að skera úr um vafamál um skuldalækkunina. Forsætisráðuneytið hefur nú opnað upplýsingavef um aðgerðaráætlunina á vefslóðinni http://skuldaleidretting.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka