Björk gefur kost á sér í 2. sætið

Björk Vilhelmsdóttir.
Björk Vilhelmsdóttir. mbl.is

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi og félagsráðgjafi, ætlar að gefa kost á sér í 2. sæti í væntanlegu flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá henni.

„Björk hefur verið í borgarstjórn í 11 ár og stýrt velferðarmálum borgarinnar stærstan hluta þess tíma með farsælum hætti. Þar áður var hún félagsráðgjafi hjá Blindrafélaginu, Stígamótum, Kvennaráðgjöfinni og á Kvennadeild Landspítalans, auk fjölbreytts starfsferils m.a. sem svínahirðir, fangavörður og sjómaður. Hún var formaður BHM 1998-2002,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Björk segir að velferðarmálin séu það sem áfram brenni á henni. „Mig langar til að sjá þjónustu við borgarbúa sem þurfa samfélagslegan stuðning í sínu persónulega lífi þróast betur. Þjónustuna á að veita á grundvelli mannréttinda, hver sem ástæða þarfarinnar er; fötlun, öldrun, veikindi eða langtíma félagslegur vandi. Ég tel að hugmyndir Samfylkingarinnar um jöfnuð, velferð og mannvirðingu eigi brýnt erindi nú og vill vinna að framgangi mála.“

Einnig sé uppbygging húsnæðis sem mætir þörfum fólks fyrir minna og ódýrara húsnæði miðsvæðis forgangsmál að hennar mati. „Á þessu kjörtímabili hefur verið samþykkt nýtt aðalskipulag og húsnæðisstefna jafnframt því að undirbúa mikla húsnæðisuppbyggingu. Þessum verkefnum langar mig til að fylgja eftir. Leigjendur verða sífellt fleiri, en nú eru það einmitt þeir sem hafa mesta greiðslubyrgði af húsnæði. Það er verkefni okkar með ríkisvaldinu að koma á húsnæðisbótum sem jafnar stuðning milli leigjenda og kaupenda. Þá mun ég áfram láta mig varða umhverfismál og kvenréttindi - þar sem hjartað slær fyrir þeim málaflokkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert