Illa læsri þjóð farnast ekki vel

Tölvur eru þarfaþing en óttast er að verði krakkar of …
Tölvur eru þarfaþing en óttast er að verði krakkar of háðir þeim dragi úr lestraráhuga og -kunnáttu þeirra. Strákar í 5. bekk Flataskóla með spjaldtölvurnar sínar. Frá vinstri: Flóki Fannar Halldórsson, Ásgeir Bjarni Eyþórsson, Sigurþór Kristinsson, Askur Hrafn Hannesson, Kári Rafn Snæbjörnsson og Aron Frank Kristinsson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mér finnst stund­um vanta aukna virðingu fyr­ir námi barna. Of marg­ir líta á skóla­göngu sem sjálf­sagðan hlut og að hún sé fyrst og fremst á ábyrgð skóla. En þegar litið er til annarra landa, svo sem þeirra sem skora hátt í rann­sókn Pisa, er skólastarf þar gjarn­an haft í há­veg­um og þátt­taka for­eldra í því er mun meiri en tíðkast hér. Skól­inn þarf þó að sjálf­sögðu líka að líta í eig­in barm og skoða hvernig bæta megi starfið svo ár­ang­ur verði betri,“ seg­ir Ólöf Sig­urðardótt­ir, skóla­stjóri í Flata­skóla í Garðabæ.

Árangri hrakað um hálft ár

Niður­stöður svo­nefnd­ar Pisa-rann­sókn­ar á færni nem­enda í grunn­skól­um í 65 lönd­um þykja slá­andi og hafa verið í umræðunni alla vik­una. Hvað Ísland áhrær­ir þá versn­ar frammistaða skóla­barna veru­lega frá 2009 og séu tíu ár und­ir hef­ur ár­angri hrakað sem nem­ur hálfu skóla­ári. Aft­ur­för þessi nær bæði til höfuðborg­ar­svæðis og lands­byggðar, þó sýnu meira til síðar­nefnda svæðis­ins. Pilt­ar standa verr að vígi en stúlk­ur. Um 30% þeirra eru á tveim­ur neðstu þrep­um lesskiln­ings og um 20% ná­lægt botni í stærðfræðilæsi.

Hér verður sjón­um beint sér­stak­lega að lestr­arkunn­áttu. Ólöf seg­ir að í Flata­skóla, þar sem eru nem­end­ur í fimm ára deild og svo 1.-7. bekk, sé fjöldi barna vel læs eða vel und­ir­bú­inn til lestr­ar­náms þegar námið hefst. Und­ir­bún­ing­ur úr leik­skóla skipti miklu máli.

Upp­lifa heim­inn á skjá

Skóla­dag­ur barna hefst á ní­unda tím­an­um á morgn­ana og stend­ur fram á eft­ir­miðdag­inn. Þá taka við frí­stunda­heim­ili, íþrótt­ir, tónlist og svo fram­veg­is. Vinnu­dag­ur barn­anna er því oft ámóta lang­ur og for­eldra. Og þegar all­ir koma dauðþreytt­ir heim und­ir kvöld­mat má ætla að fólk – á hvaða aldri sem það er – hafi ekki mikla orku í nám eða lest­ur. Þetta leiðir af sér þá spurn­ingu hvort aft­ur­för­in liggi í þjóðfé­lags­gerðinni. Er ein­hver tími?

„Ein af for­send­um fyr­ir góðum náms­ár­angri er að nem­end­ur búi við góðar aðstæður til náms. Þó form­leg mennt­un fari fram að miklu leyti í skól­un­um, und­ir hand­leiðslu kenn­ara og fag­fólks, þá ræðst náms­ár­ang­ur þeirra líka að miklu leyti af öðrum þátt­um og þá ekki síst áhuga og hvatn­ingu for­eldra,“ seg­ir Ólöf.

„Inn­an veggja heim­il­is­ins er grunn­ur­inn lagður að færni og viðhorf­um barna og þau hafa mikið að segja varðandi framtíð þeirra í námi. Íslensk­ar fjöl­skyld­ur vinna mikið og við vit­um líka að for­eldr­ar verja löng­um stund­um í tóm­stund­ir og áhuga­mál sín, án barn­anna sinna sem gjalda þess í mörg­um til­vik­um. Tím­inn sem for­eldr­ar eiga með börn­un­um er aðeins örfá ár sem þó skipta sköp­um í lífi þeirra. Ég hef líka áhyggj­ur af því að þegar fjöl­skyld­an hef­ur tæki­færi til að vera sam­an þá bæt­ist við and­leg fjar­vera for­eldra og barna með til­komu snjall­tækj­anna þar sem hver sit­ur með sitt tæki og upp­lif­ir heim­inn á skjá.“

Samn­ing­ar gegn breyt­ing­um

Ólöf seg­ir enn­frem­ur að mörg börn séu önn­um kaf­in í tóm­stund­a­starfi, svo sem íþrótt­um og tónlist sem er vissu­lega af hinu góða. Hún hafi þó stund­um áhyggj­ur af því að mark­miðið með æf­ing­um þess­um sé ekki endi­lega barn­vænt, þ.e. að áhersla sé lögð á mark­miðið að ná í fremstu röð frem­ur en að ala upp heil­brigðan ein­stak­ling. „Þegar barn kvart­ar yfir álagi og kvíða í tengsl­um við íþróttaiðkun og aðrar tóm­stund­ir eða nær ekki að sinna kröf­um náms­ins erum við að missa sjón­ar á því að skól­inn á að vera í fyrsta sæti.“

Þegar niður­stöður könn­un­ar voru kunn­gerðar í vik­unni sögðu full­trú­ar Kenn­ara­sam­bands Íslands að út­kom­an helgaðist meðal ann­ars af niður­skurði til skóla­mála. Ólöf seg­ir þetta sjón­ar­mið eiga rétt á sér. Laun kenn­ara séu sann­ar­lega ekki nógu góð en kjara­samn­ing­ar kenn­ara séu líka að mörgu leyti úr­elt plagg sem vinni jafn­vel gegn nauðsyn­leg­um breyt­ing­um á skóla­kerf­inu. Með breyt­ingu á kennslu­hátt­um, nýrri upp­röðun á skóla­deg­in­um og auk­inni áherslu á grunnþætti náms­ins megi ná lengra en nú er raun­in. Það hafi líka góð og hvetj­andi áhrif t.d. í ís­lensku­kennslu þegar góðir rit­höf­und­ar koma í heim­sókn í skól­ana.

Þarf enga töfra

Góðar bæk­ur geta breytt miklu. Hef­ur í þessu sam­bandi verið sagt að bæk­urn­ar um hinn ramm­göldr­ótta Harry Potter sem hafa notið mik­illa vin­sælda hafi styrkt lestr­arkunn­áttu ís­lenskra barna. En hvað hef­ur gerst? „Maður hefði nú haldið að Potter-kyn­slóðin væri nú að skila sér í könn­un­inni. Harry Potter er ennþá til. En þarf alltaf æði til að all­ir geri eitt­hvað sam­tím­is? Ég held að það þurfi enga töfra, bara tíma með þess­um krökk­um, ekki síst strák­um,“ seg­ir Andri Snær Magna­son rit­höf­und­ur. Hann hef­ur á síðustu árum skrifað fjölda bóka sem ung­menni hafa haft gam­an af, svo sem Sög­una af bláa hnett­in­um.

„Ég hef heyrt marg­ar skýr­ing­ar á niður­stöðum könn­un­ar Pisa, jafn­vel að prófið sé gam­aldags. En af hverju er þá kynjamun­ur­inn svona mik­ill? Ef við lít­um á sér­staka hópa – til dæm­is börn inn­flytj­enda – þá er málið enn al­var­legra, þar sem þau börn hafa sum hver ekki for­eldra til að hjálpa sér þar sem þeir skilja ekki ís­lensku. Þar erum við að kasta á glæ gríðar­mikl­um hæfi­leik­um og tæki­fær­um og hugs­an­lega að skapa al­var­leg fé­lags­leg vanda­mál,“ seg­ir Andri Snær.

„Illa læsri þjóð farn­ast ekki vel. Ef skil­ur svona á milli drengja og stúlkna gæti það haft ófyr­ir­séðar af­leiðing­ar; ef spenna vex milli kynj­anna þegar sták­arn­ir enda sem eft­ir­bát­ar stelpna. Svona vís­ar eru oft notaðir til að spá um hnign­un og jaðarsvæði. Strák­arn­ir verða eft­ir en kon­urn­ar fara,“ seg­ir Andri. Hann nefn­ir einnig það sem Ólöf Sig­urðardótt­ir seg­ir að þegar börn­in séu á fullu í ýmsu tóm­stund­a­starfi sé oft lít­ill tími til lestr­ar eða heima­náms. Betra skipu­lag til dæm­is á vinnu­degi barna myndi margt auðvelda.

Ásköpuð fötl­un

Andri Snær seg­ist þekkja þess dæmi að skóla­bóka­söfn kaupi ekki nýj­ar bæk­ur vegna fjár­skorts. „Það er hrika­legt ef skól­ar eiga ekki þær bæk­ur sem helst eru nefnd­ar. Umræða um lista­menn sem afæt­ur á sam­fé­lag­inu, sem eiga að spjara sig á frjáls­um markaði, er at­hygl­is­verð í ljósi Pisa-könn­un­ar­inn­ar,“ seg­ir Andri Snær sem tel­ur at­hygl­is­vert að pilt­ar standi tals­vert verr að vígi en stúlk­ur hvað lest­ur­inn varðar.

„Ég held að and­legt líf, tungu­mál og tján­ing stráka, sem eyða of mikl­um tíma í tölvu­leikj­um og hafa ekki náð tök­um á lestri, sé því miður fá­tæk­legt. Þeir muni ekki nota tölvurn­ar til að opna fyr­ir sér heim­inn. Geta ekki held­ur orðað hugs­an­ir sín­ar og líðan, fært rök fyr­ir máli sínu eða greint flókn­ar upp­lýs­ing­ar. Það er ásköpuð fötl­un.“

Andri Snær Magnason
Andri Snær Magna­son mbl.is/​Sig­urður Bogi
Ólöf Sigurðardóttir, skólastjóri í Flataskóla í Garðabæ.
Ólöf Sig­urðardótt­ir, skóla­stjóri í Flata­skóla í Garðabæ. mbl.is/​Sig­urður Bogi
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert