Fjöldi fólks hóf óvænt upp raust sína í Smáralind í dag og söng lagið Heyr himna smiður. Athæfið vakti mikla athygli en um svokallað „flashmob“ var að ræða. Það voru kórsöngvarar úr ýmsum áttum sem komu þarna saman og var þetta gert til að vekja athygli á niðurskurðinum hjá Ríkisútvarpinu.
„Nú skulum við kórfólk láta í okkur heyra, ekki síst þar sem Rás 1 er eiginlega eini fjölmiðillinn sem sinnir kórtónlist,“ sagði í hvatningunni til kórfélaga og einnig að þetta væri „einskonar flashmob með útfararblæ“.
Hópurinn kom fram sem ein heild, kórsöngvarar á Íslandi, en ekki sem stakir kórar eða kórstjórar. „Það er mikilvægt að enginn reyni að eigna sér þennan gjörning fram yfir aðra,“ sagði ennfremur í hvatningunni.