Edda Sif Pálsdóttir skilur hvers vegna hún komst ekki gegnum blóðugan niðurskurð á RÚV. Henni blöskraði þó viðbrögð fólks sem hélt að henni hefði verið þyrmt og viðurkennir að þá fyrst, eftir sjö ár, hafi sú staðreynd að hún er dóttir útvarpsstjóra náð til hennar. Edda Sif vonast til að geta unnið áfram við fjölmiðla og óskar RÚV alls hins besta í erfiðum róðri sem nú er framundan.
Edda Sif er 25 ára gömul. Eigi að síður hefur hún unnið í sjö ár hjá RÚV með námi. „Ég byrjaði á söludeildinni meðan ég var ennþá í framhaldsskóla, færði mig svo yfir á safnadeildina og þaðan yfir á fréttastofuna, þar sem ég var skrifta. Ég var líka um tíma skrifta á íþróttadeildinni áður en ég varð íþróttafréttamaður fyrir þremur árum. RÚV hefur verið stór partur af mínu lífi síðustu sjö árin og það er strax orðið skrýtið að koma ekki upp í Efstaleiti.“
<div>„Ég veit ekki hvort það var betra eða verra að vera ekki á staðnum. Ég slapp auðvitað við alla ringulreiðina innanhúss en á móti kom að ég varð að átta mig á þessu sjálf heima. Þegar yfirmaður minn á íþróttadeildinni, Kristín Hálfdánardóttir, hringdi síðan get ég ekki sagt að ég hafi orðið hissa. Ég var lausráðin þannig að ekki þurfti að afhenda mér uppsagnarbréf og Kristín talaði um að eftir þessar miklu breytingar yrði einfaldlega engin aukavinna sem ég hafði sinnt og því væri samstarfi okkar í raun sjálflokið.“</div><div>Þar með var þó ekki öll sagan sögð. „Ég talaði við Benedikt kollega minn Grétarsson, sem líka hefur verið tímastarfsmaður, og hann tjáði mér að áfram yrðu not fyrir hans krafta. Þetta kom mér á óvart, þar sem hann hefur unnið mun skemur en ég á deildinni. Eftir að hafa heyrt þetta talaði ég aftur við Kristínu til að spyrja hver munurinn á okkur Benedikt væri. Þá svaraði hún því til að ég væri dóttir útvarpsstjóra og við þessar aðstæður gengi ekki að ég héldi vinnunni.“</div><h3 class="millifyrirs">Var best fyrir alla</h3>Edda Sif er Kristínu þakklát fyrir hreinskilnina og hefur fullan skilning á afstöðu yfirmanna sinna. „Mér finnst auðvitað leiðinlegt að þurfa að hætta og ástæðan fyrir mig persónulega má segja að sé svekkjandi en ég skil vel að þessi lausn var best fyrir alla fyrst þessar erfiðu aðstæður komu upp. Það hefði verið mjög óþægilegt fyrir mig, dóttur útvarpsstjóra, að mæta í vinnuna hefði ég haldið starfinu. Ég lít ekki á uppsögnina sem áfellisdóm yfir mínum störfum, frekar en störfum annarra sem sagt var upp. Allt var þetta fólk að standa sig vel. En einhverjir þurftu að fara og það kom í okkar hlut.“
Fljótt fór að spyrjast út hverjir hefðu misst vinnuna hjá RÚV og þar sem Edda Sif tjáði sig ekkert um málið fyrst um sinn, eins og sumir kollegar hennar, hröpuðu einhverjir að þeirri ályktun að hún hefði ekki verið látin fara. „Ég sá einhverjar færslur á Twitter en þar sem ég fer aldrei inn á barnaland.is og viðlíka síður varð ég ekki vör við athugasemdirnar í kommentakerfunum þar. Heyrði bara af þeim gegnum aðra. Margt af því var mjög ónærgætið. Auðvitað get ég skilið tilhneigingu fólks til að stilla mér upp andspænis öðrum starfsmönnum RÚV en þarna var samt skotið hátt yfir markið.“
Hún ákvað daginn eftir að setja færslu inn á Facebook til að upplýsa fólk um að hún hefði í raun og veru misst vinnuna en fyrst og fremst því henni ofbauð umræðan í samfélaginu. „Það var mjög óþægilegt að finna fyrir þessari óvild frá fólki sem ég þekki ekki neitt. Ég var ein heima í próflestri og væri að skrökva ef ég segði að þetta hefði ekki komið við mig. Ég var alveg varnarlaus og leið hálfpartinn eins og allur heimurinn væri á móti mér og það fyrir heldur litlar sakir að mínu mati. Þegar byrjað er að tala um mig, pabba og RÚV er ég vön að draga mig bara í hlé en þarna tók ég þetta allt í einu inn á mig í fyrsta skipti. Ég held að ég sé frekar hörð að upplagi en þetta var of mikið. Eiginlega yfirþyrmandi.“
<strong>Ítarlegt viðtal við Eddu Sif er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.</strong>