„Kjósendur þínir verðskulda að vita fyrir hvaða upphæð þú seldir þig Hollywood og hvaða leyniákvæði leynast í samningnum,“ segir Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, á Twitter og beinir orðum sínum til Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata. Birgitta spyr á móti hvort Assange leiðist í sendiráðinu.
„Eftir að hafa varið enn einum degi í hreinsunarstörf eftir að þú stærir þig af hlutum sem þú hefur aldrei haft undir höndum er ég ekki í skapi til að svara þér,“ skrifar Birgitta og spyr hvers vegna hann taki ekki þátt í að hreinsa upp eftir sig og vísar þá til þess sem kemur fram í gögnum Wired um að símar Alþingis hafi verið hleraðir á um fjögurra mánaða tímabili í lok árs 2009 og byrjun 2010 og að WikiLeaks hafi upptökurnar undir höndum.
Assange heldur því fram að Birgitta hafi selt bandaríska kvikmyndafyrirtækinu Dreamworks söguna um WikiLeaks, en nýverið kom út myndin The Fifth Estate. Í henni er fjallað um uppljóstranavefinn WikiLeaks og stofnanda hans, Julian Assange. Myndin er „flopp“ ársins samkvæmt nýlegum lista Forbes-tímaritsins.
Þar kemur fram að gerð myndarinnar hafi kostað 28 milljónir Bandaríkjadala en tekjur af henni séu hins vegar einungis sex milljónir dala.
„Hvernig getur nokkur maður treyst þér á meðan þú ert samningsbundin Hollywood,“ skrifar Assange og bætir við að í samningi Birgittu við Dreamworks sé ákvæði um þagnarskyldu. „Er hægt að detta niður á lægra plan?“
Rifrildi Birgittu og Assange á Twitter
Frétt mbl.is: Voru símar Alþingis hleraðir?
Frétt mbl.is: Mögulegar hleranir til lögreglu
Frétt mbl.is: Birgitta segist ekkert vita um hleranir