Samkvæmi 13 ára pilts leyst upp

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leysti seint í gærkvöldi upp samkvæmi ungmenna í Sogamýri í Reykjavík. Tveir piltar voru færðir á Stuðla, þar á meðal húsráðandi sem er þrettán ára. Mikil ölvun var í samkvæminu og sóttu ungmennin að lögreglumönnum og hræktu meðal annars á þá. Þurfti að kalla eftir liðsauka.

Það var um klukkan ellefu í gærkvöldi sem kvartað var við lögreglu undan hávaða í húsi í Sogamýri. Þegar lögreglumenn komu á staðinn tók á móti þeim piltur sem sagðist vera 17 ára gamall og hafa fullt leyfi móður sinnar til að halda þarna unglingasamkvæmi. Í ljós kom að pilturinn var aðeins 13 ára og í mjög annarlegu ástandi. Reyndist hann hafa haldið samkvæmið í óþökk móður sinnar sem ekki var heima.

Húsráðandinn var ógnandi og kastaði hlutum að lögreglumönnum. Fleiri ungmenni sóttu að lögreglumönnunum og var ákveðið að kalla eftir liðsauka. Mörg ungmennin voru í mjög annarlegu ástandi og ákvað lögregla að færa tvo pilta úr samkvæminu á Stuðla. 

Einn var sóttur af foreldri og einn 16 ára piltur var færður í fangaklefa en hann hafði meðal annars hrækt í andlit lögreglumanns. Áður en hann var vistaður í fangaklefa var fullreynt að koma honum í hendur foreldra og/eða barnaverndar.

Aðrir unglingar komu sér sjálfir á brott.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert