Tilgangurinn að aðlaga Ísland að ESB

AFP

„Tilgangur IPA-styrkja er að styðja ríkið í áframhaldandi aðlögun að löggjöf, stöðlum og stefnum Evrópusambandsins með það fyrir augum að verða að fullu undir það búið að ganga í sambandið. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa stöðvað viðræðurnar er grundvöllur fyrir IPA-styrki ekki lengur fyrir hendi og fyrir vikið er ekki hægt að réttlæta áframhaldandi styrki í samræmi við grundvallaratriði um góða fjármálastjórn.“

Þetta segir í tilkynningu á vefsíðu sendiráðs Evrópusambandsins á Íslandi vegna ákvörðunar sambandsins um að hætta allir svokallaðri IPA-aðstoð við Ísland. Aðstoðin gengur sem fyrr segir út á að undirbúa ríki undir inngöngu í Evrópusambandið. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur gagnrýnt þá ákvörðun harðlega þar sem sambandið hafi áður gert ráð fyrir því að yfirstandandi IPA-styrkt verkefni yrðu kláruð. Ákvörðunin kæmi því íslenskum stjórnvöldum í opna skjöldu. Sérstakur rammasamningur tók gildi á síðasta ári um IPA-styrkina á milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins þar sem gert er ráð fyrir að yfirstandandi verkefni haldi áfram og verði kláruð þrátt fyrir að samningnum sé sagt upp af öðrum aðila hans.

Tilgangi ekki mætt með áframhaldandi stuðningi

Fram kemur í tilkynningunni að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi fyrr á þessu ári lýst því yfir að ný verkefni yrðu ekki fjármögnuð með IPA-styrkjum í ljósi ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að hætta viðræðum við sambandið. „Hvað varðar yfirstandandi verkefni í samræmi við IPA I-landsáætlunina fyrir Ísland hefur framkvæmdastjórnin farið vandlega yfir þau í ljósi tilgangsins með IPA-aðstoðinni, það er að segja að styðja við inngönguferlið, sem og grundvallaratriði um góða fjármálastjórn, og komist að þeirri niðurstöðu að hætta beri við öll IPA-verkefni.“

Fram kemur að þetta verði gert í samræmi við öll samningsbundin ákvæði og þar með talið varðandi greiðslur í samræmi við uppsagnarákvæði samninga. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar hafi verið komið á framfæri við viðeigandi stjórnvöld á Íslandi 2. desember síðastliðinn. Þar hafi þeirri von ennfremur verið komið á framfæri að íslensk stjórnvöld sæju sér hag í því að halda áfram einhverjum af verkefnunum og taka við fjármögnun og stjórn þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert