„Öllum sem er annt um öryggi Íslands sjá að tillaga Ögmundar var flutt af pólitískri skemmdarfýsn. Samþykkt hennar hefði stórskaðað hagsmuni Íslands og gert þjóðina endanlega marklausa í öllum umræðum um öryggismál.“
Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni í kvöld og vísar þar til þess að Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, hafi í tíð síðustu ríkisstjórnar viljað spara 500 milljónir króna með því að hætta allri NATO-tengdri starfsemi á vegum ráðuneytis síns. Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafi hins vegar haft betur í þeim efnum við ríkisstjórnarborðið. Vísar Björn í þeim efnum í nýútkomna bók Össurar sem byggð er á dagbókarfærslum hans.
„Ögmundur skýrði aldrei frá þessari sparnaðartillögu sinni opinberlega og hún hefur legið í þagnargildi fram að útgáfu bókar Össurar,“ segir Björn og þykir einkennilegt að enginn sem fjallað hafi um bókina hafi minnst á deilur um NATO innan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.