Búið er að leggja fram beiðni til ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara um rannsókn á málefnum hjúkrunarheimilisins Eirar. Þetta kom fram á stofnfundi Hagsmunafélags íbúðaréttarhafa á Eir í kvöld. Á fundinum kom fram að tilboð hefur verið lagt fram í allar eignir Eirar, en stjórn Eirar hafnaði því.
Um 90 manns voru á stofnfundinum. Fundurinn samþykkti að afþakka frekari þjónustu lögmanns sem stjórn Eirar réði til að gæta hagsmuna íbúðarréttarhafa og ráða Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann til að vinna fyrir hið nýstofnaða félag.
Margir fundarmenn lýstu áhyggjum af stöðu mála og sögðust þurfa að taka ákvörðun fyrir jól um hvort þeir ættu að skrifa undir nauðasamninga eða ekki, en samkvæmt samningnum fá íbúðarétthafar skuldabréf til 30 ára með 3,5% vöxtum. Ef tilboð um nauðasamningaverður ekki samþykkt blasir gjaldþrot við. Ragnar sagði að stjórn Hagsmunasamtakanna yrði á næstu dögum að fara yfir málið og koma síðan með ráðleggingu til íbúa um hvað best væri að gera í sambandi við nauðasamninga.
Ragnar sagði mikilvægt að íbúaréttarhafar lýstu kröfum á hendur Eir, stofnaðilum Eirar, Reykjavíkurborg, ríkinu og stjórnarmönnum í Eir og fylgdi þeim eftir með rökstuðningi.
Sigríður Kristinsdóttir, lögmaður sem unnið hefur fyrir tvo íbúðarrétthafa, upplýsti á fundinum að einn aðili hefði gert tilboð í eignir Eirar og boðist til að taka yfir allar skuldbindingar heimilisins, þar á meða skyldur gagnvart íbúðaréttarhöfum. Stjórn Eirar hefði hafnað þessu tilboði. Hún sagði alvarlegt að þessi aðili hefði ekki fengið að koma að borðinu.
Sigríður vildi í samtali við mbl.is ekki upplýsa hvaða aðili þetta væri, en um væri að ræða ábyrgan aðila sem hefði þekkingu á þessum rekstri. Hún sagðist gera ráð fyrir að viðkomandi myndi fljótlega gera stjórn Hagsmunafélags Eirar grein fyrir tilboðinu og fyrirvörum sem á því væru.
Jóhann Páll Símonarson upplýsti á fundinum að hann hefði sent beiðni um rannsókn á málefnum Eirar til ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara. Hann sagði að í skýrslu Deloitte um rekstur Eirar væri sterklega gefið til kynna að stjórnarmenn hefðu gerst sekir um refsiverða háttsemi með athafnaleysi sínu.
Fram kom líka á fundinum að stjórn Eirar hefði sent sérstökum saksóknara bréf um rannsókn á tilteknum atriðum í rekstri stofnunarinnar. Þeir sem undirbjuggu stofnfundinn óskuðu eftir upplýsingum um hvaða atriði þarna væri um að ræða, en ekki fengið.