Gera sjónvarpsþætti um bækur Yrsu

Yrsa Sigurðardóttir.
Yrsa Sigurðardóttir.

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi og Bókaútgáfan Veröld hafa gert með sér samning um gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggð verður á glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur um Þóru Guðmundsdóttur lögmann. „Ég er ánægður að vera kominn með þetta í hendurnar,“ segir Sigurjón í samtali við mbl.is.

Sigurjón hefur þegar ráðið dönsku kvikmyndagerðarkonuna Kathrine Windfeld til að leikstýra þáttunum en hún hefur meðal annars leikstýrt þáttum úr sjónvarpsþáttaröðunum Broen, Forbrydelsen og sjónvarpsmyndum eftir sögum Hennings Mankells um Wallander lögregluforingja. Windfeld mun að minnsta kosti sjá um fyrstu fimm þættina, að sögn Sigurjóns.

Meðal meðframleiðenda verður Peter Nadermann, einn framleiðenda sjónvarpsþáttaraðanna Broen og Forbrydelsen og kvikmynda gerðra eftir Millennium-þríleik Stiegs Larssons. Handritsdrög að fyrstu þáttunum liggja þegar fyrir, en Sveinbjörn I. Baldvinsson hefur unnið að handritunum í samstarfi við Sigurjón.

„Gert er ráð fyrir að fyrsta bókin, Þriðja táknið, verði að fimm þáttum,“ segir Sigurjón, en þar eru helstu persónur glæpasagna Yrsu um Þóru Guðmundsdóttur kynntar til sögunnar.

Gert er ráð fyrir að þættirnir eftir glæpasögum Yrsu verði á ensku, með alþjóðlegum og íslenskum leikurum en tökur fari fram hér á landi.

„Tökur á þáttaröðinni hefjast vonandi í haust,“ segir Sigurjón og bætir við að þættirnir verði þá mögulega sýndir í sjónvarpi árið 2015.

Sigurjón hefur framleitt yfir fjörutíu kvikmyndir og sjónvarpsseríur, aðallega sem sjálfstæður framleiðandi í Hollywood. Kvikmynd hans Wild at Heart í leikstjórn Davids Lynch hlaut Gullpálmann í Cannes á sínum tíma en hann hefur unnið með mörgum af þekktustu leikurum samtímans.

Útgáfuréttur á glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur hefur verið seldur á yfir þrjátíu tungumál í öllum byggðum heimsálfum veraldar. Sunday Times útnefndi á dögunum Horfðu á mig, eina af bókunum um Þóru lögmann, glæpasögu ársins 2013 í Bretlandi og Times Literary Supplement ritaði að verk hennar stæðust samanburð við það sem best gerðist í glæpasögum, hvar sem væri í veröldinni.

Sigurjón Sighvatsson, Yrsa Sigurðardóttir og Pétur Már Ólafsson.
Sigurjón Sighvatsson, Yrsa Sigurðardóttir og Pétur Már Ólafsson. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert