Skyndikynni sem breyttust í martröð

Stefán Logi Sívarsson.
Stefán Logi Sívarsson.

„Þarna var ég búinn að sætta mig við að þetta væri búið,“ sagði ungur maður sem sviptur var frelsi sínu í tæpan sólarhring og þurfti á þeim tíma að þola skelfilegar barsmíðar auk þess að vera þvingaður til að taka óþekkt lyf. Sökin var sú að hann hitti stúlku í gleðskap og sængaði hjá henni.

Fyrsta degi aðalmeðferðar yfir Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum karlmönnum lauk um klukkan sex í kvöld. Miklar tafir urðu og riðlaðist dagskrá en þó tókst að taka skýrslu af sakborningum og fórnarlömbunum tveimur í málinu.

Í málinu eru mennirnir ákærðir fyrir að svipta tvo menn frelsi sínu og beita þá miklu ofbeldi. Málið kom upp síðustu helgina í júní síðastliðnum og tengjast þannig að kveikjan var sú sama; ungur maður kynntist ungri konu í gleðskap, þau náðu saman og enduðu á að sofa saman.

Þess ber að geta að hér er rakinn framburður fórnarlamba í málinu. Sakborningar neita allir sök og hafa ekki verið dæmdir sekir. Hér er því ekki verið að taka afstöðu til sakarefnisins.

Stefáni Loga fannst hann svikinn

„Ég var þarna að segja Stefáni Loga frá [kunningja mínum] og að þau hefðu verið saman.“ Þannig lýsti karlmaður upphafinu að því sem reyndist martröð fyrir hann sjálfan og félaga hans. Þarna greindi hann frá því að félagi hans hefði sofið hjá barnsmóður Stefáns Loga. Afleiðingarnar sá hann ekki fyrir.

Þetta gerðist snemma kvölds sunnudaginn 30. júní síðastliðinn í íbúð í Breiðholti. Stefán Logi tók fréttunum afar illa og undir forystu hans mátti maðurinn þola að vera sviptur frelsi sínu allt þar til í hádeginu daginn eftir. Spurður út í hvers vegna það hafi verið sagði maðurinn: „Honum fannst að ég hefði svikið hann, að segja ekki frá þessu fyrr.“

Maðurinn lýsti afleiðingum ofbeldisins en hann kinnbeinsbrotnaði, augntóft brotnaði og hann er með stórt ör á hendinni. „Og svo fæ ég martraðir og er bara hræddur.“

Af lýsingum að dæma virðist maðurinn þó hafa fengið nokkru vægari dóm en kunninginn. „[Hann] var barinn mjög gróflega. Stefán Logi hoppaði á bakinu á honum, hrækti á hann og kýldi hann. Allir voru að kýla hann saman, fjórir í einu. Svo var honum hent í sturtu. [...] Honum var hent í gólfið og hann laminn með kylfum. Ég sá ekki hvað gerðist í svefnherberginu en það var risastór blóðpollur á gólfinu. [...] Þeir settu í hann pillur, þannig að hann var slefandi. Hann var hálf sofandi.“

„Ég get ekki hjálpað þér út úr þessu“

Kunninginn, ungi maðurinn, kom næstur fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hann þekkir ekki Stefán Loga, Stefán Blackburn eða aðra sakborninga en kannaðist við einn þeirra. Hann vissi ekki að konan sem hann hitti og svaf hjá sé barnsmóðir Stefáns Loga. Hann hafði því ekki hugmynd um hvað gengi á þegar bjöllunni hjá honum var hringt klukkan 0.30 aðfaranótt mánudagsins 1. júlí.

„Ég vakna við það og svara dyrasímanum. Þar er rödd sem kynnir sig sem [...] sem er félagi minn, þannig að ég „bössa“ hann inn. Um leið og ég tek svo úr lás er sem hurðin springi. Inn kemur Stefán Blackburn með þrjá á eftir sér. [...] Stefán keyrir mig inn í íbúðina og á meðan ég er að reyna átta mig á hvað sé í gangi spyr ég hvað ég hafi gert af mér. Þá er þarna [maðurinn sem hann kannaðist aðeins við] sem muldrar „hvað ertu búinn að gera. Ég get ekki hjálpað þér út úr þessu“. Þeir eru flestir vopnaðir og byrja að lemja mig. [...] Ég áttaði mig á því að ég var yfirbugaður og þeir gerðu mér grein fyrir því að ég var að fara með þeim.“

Hann sagði að Stefán Blackburn hefði gert það skýrt hvernig þeir myndu ganga út í bíl. Fyrstur færi Hinrik Geir Helgason, næstur Davíð Freyr Magnússon, þá hann með Stefáni og síðastur Gísli Þór Gunnarsson. „Stefán [Blackburn] er með hníf segir að ég verði stunginn ef ég reyni eitthvað.“

Þaðan keyra þeir aftur upp í Breiðholt. Þar tekur Stefán Logi á móti þeim. „Hann spyr „er þetta hann?“ og byrjar að tala um hvað ég sé ófríður. Þeir taka mig út úr bílnum og Stefán Logi gefur mér tvö til þrjú kjaftshögg. Hann gengur með mig að blokk þarna og að svalahurð íbúðar á jarðhæð.  Inn um gluggann sé ég strák sem ég kannast við [kunningi hans sem greindi frá sambandinu við barnsmóður Stefáns Loga] og það var greinlega eitthvað búið að vera í gangi því hann var bólginn og virkaði mjög hræddur.“

Kveikt var í honum

Þaðan fóru þeir í Hafnarfjörð, í íbúð sem Stefán Logi hafði aðgang að. Þar er maðurinn bundinn á höndum og fótum og látinn liggja á gólfinu. „Það var ekkert mjög mikið ofbeldi á þeim tímapunkti. Síðan kom Stefán Logi og ofbeldið hófst fyrir alvöru.“

Það var þá sem sprautað var rakspíra á kynfæri mannsins og kveikt í þeim. „Ég rykki mér yfir á magann til að reyna slökkva eldinn. Það voru eiginlega fyrstu alvöru viðbrögð mín við því sem var að gerast. Og þá dynja á mér höggin.

Hann sagði að mennirnir hefðu í sífellu reist hann upp svo hann stæði uppréttur. „Þeir standa í kringum mig og ég fæ högg úr öllum áttum. Það eru notaðar kylfur við þetta og hnefar. Ég man eftir andartakinu þegar ég missi tönn og vörin fer í sundur. Þeir öskra á mig að ég hafi sofið hjá fyrrverandi kærstu Stefáns Loga og hann spyr mig út í það. Ég gengst við því en hann vill meina að þetta hafi verið meira en ein nótt og krefst þess að fara inn á Facebook aðganginn minn. Og hann fer þangað inn en finnur ekki neitt. Ég hafði ekki haft nein samskipti við þessa stúlku.“

Samkvæmt því sem maðurinn sagði slökkti Stefán Logi í vindlingi sínum á andlitinu á honum og Stefán Blackburn hótaði að klippa miðnesið á honum sundur með vírklippum. „Stefán Logi ákveður svo að ég eigi að gleypa pillur sem hann er með. Hann lúku full af mislitum pillum sem hann treður upp í mig. Mér er rétt vatnsglas til að kyngja þessu og höggin halda áfram.“

Eftir það er Davíð gert að sprauta hann með einhverju sem maðurinn veit ekki hvað var. „Og ég finn nál fara inn í rassinn á mér.“

Ofbeldið var yfirþyrmandi en maðurinn man þegar lyfin tóku yfir. „Stefán Blackburn var að velta fyrir sér hvort hann gæti brotið á mér löppina með kylfu og lamdi mig svo gríðarlega fast rétt fyrir neðan kálfann. Svo byrja lyfin að „kikka inn“ og ég hætti að geta varist.

Sögðu að hann yrði látinn hverfa

Þá var tekin ákvörðun um að fara með manninn eitthvað annað. Farið var með hann í sturtu og hann þrifinn. Þá komu upp vangaveltur um vörina á honum, sem var lafandi. „Stefán Logi spyr mig hvort ég vilji að hann klippi þetta af. Ég segi að mér sé nokk sama en Davíð segist geta reynt að sauma þetta.“ Fer svo að Davíð saumaði vörina á honum saman.

Eftir þetta er minni mannsins gloppótt og hann orðinn mjög ruglaður. Hann man þó eftir því að hann var dreginn á stofugólf íbúðarinnar og þar var kominn kunningi hans sem hann sá síðast í gegnum rúðuna í Breiðholti. Báðir voru þeir þá beittir ofbeldi í Hafnarfirði eða þangað til ákveðið var að fara með manninn á Stokkseyri.

Maðurinn segist hafa dottið út og rankað við sér þegar farið var með hann í íbúð á Stokkseyri. „Þeir klæða mig úr fötunum og Stefán Blackburn er að berja mig með belti og rafmagnssnúrum. Á meðan ég er klæddur í svartan ruslapoka ýja þeir að því að ég muni ekki eiga afturkvæmt.“ Þeir sögðu honum einnig að margir hyrfu á Íslandi þótt það kæmi ekki í fréttir.

Eftir það er farið með manninn í kjallara hússins og hann múlbundinn og bundinn við burðarbita. „Þeir skildu mig eftir í myrkrinu og ég var orðinn mjög ruglaður af lyfjunum, sá ofsjónir og var alltaf að sjá einhverjar hreyfingar. Þarna var ég búinn að sætta mig við að þetta væri búið.“

Átti að taka strætó til Reykjavíkur

Húsráðandinn, sem ekki er ákærður í málinu, opnaði síðar hlerann og bauð manninum að koma upp. Hann sagðist ekki hafa þorað það en þegar sá tjáði manninum að árásarmennirnir væru farnir í bæinn varð hann við bón húsráðandans. Hann sagðist hafa orðið smeykur þegar hann sá lögreglubíl keyra framhjá og hafi því hringt í Davíð og spurt hvað hann ætti að gera. Samþykkti Davíð að það mætti sleppa manninum. „Ég fer í sturtu hjá honum og svo lætur hann mig hafa einhver föt, safnar saman klinki og segir mér að taka strætó í bæinn. Og að ég eigi að segjast hafa verið á sveitaballi og lent í slagsmálum.“

Maðurinn fór út á bensínstöð. Hringdi í föður sinn sem sótti hann. Eftir umræður þeirra á milli og símtal til lögreglumanns í fjölskyldunni var ákveðið að fara á slysadeild Landspítalans og kalla eftir aðstoð lögreglu.

Þegar hann var spurður hvort það gæti verið að eina tilefnið væri kynnin við barnsmóður Stefáns Loga sagði maðurinn svo vera. „Og svo rukkar hann mig um pening. Hann segir að ég skuldi sér fimm milljónir fyrir að sofa hjá henni. Ég segist ekki eiga fyrir því en hann segir að ég eigi íbúð og geti tekið veð í henni.“

Aðalmeðferð heldur áfram á morgun og koma þá meðal annars fyrir dóminn vitni sem voru í gleðskapnum í Breiðholti.

Stefán Blackburn.
Stefán Blackburn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert