Ekki skorið niður í barnabótum

Sigmundur Davíð forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra. mbl.is/Rósa Braga

„Ég geri ekki ráð fyrir að það verði nein skerðing á barnabótum þegar niðurstaða fjárlagavinnunnar liggur fyrir,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag.

Sigmundur Davíð sagði þetta í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Hann vísaði til ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, sem sagði að stjórnarmeirihlutinn áformaði að lækka barnabætur.

Árni Páll gagnrýndi þessar hugmyndir harðlega og sagði lækkun á barnabótum og vaxtabótum koma illa við þá sem væru með þunga skuldabyrgði. Hann sagði að viðbrögð aðila vinnumarkaðar væru eins og sprengju hefði verið varpað inn í kjaraviðræður.

Sigmundur Davíð sagði að í fjárlagavinnunni hefði ríkisstjórnin orðið að velta við hverjum steini. Lækkun útgjalda í bótakerfinu hefði m.a. verið til skoðunar. Ríkisstjórnin vildi snúa ofan að aðgerðum fyrri ríkisstjórnar sem hefði  gripið til aðgerða sem sköðuðu heilbrigðiskerfið og hefðu dregið þrótt úr efnahagslífinu. Núverandi ríkisstjórnin vildi standa vörð um grunnþjónustu.

Sigmundur Davíð sagði að niðurstaðan væri sú að barnabætur yrðu ekki skertar. Staðið yrði vörð um þá aukningu barnabóta sem hefði orðið og þær yrðu miklu hærri en var í tíð fyrri ríkisstjórnarinnar.

Skorið niður í þróunaraðstoð

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra staðfesti hins vegar að skorið yrði niður í þróunaraðstoð og peningum sem hefðu átt að fara þangað samkvæmt fjárlagafrumvarpi yrði varið í heilbrigðiskerfið á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka