Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin að leita annarra leiða en krónutöluhækkana til að koma sérstaklega til móts við tekjulægstu hópana í yfirstandandi kjaraviðræðum.
Í síðustu viku slitnaði upp úr viðræðum ASÍ og SA þegar SA hafnaði kröfu um hækkun lægstu launa um ákveðna krónutölu samhliða samningum um prósentuhækkanir. „Við höfum sagt að við erum tilbúin til þess að skoða ýmsar leiðir til að koma til móts við lægst launuðu hópana, án þess að það valdi miklu launaskriði,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Starfsgreinasambandið og Flóafélögin hafa vísað kjaradeilunum til ríkissáttasemjara. Allt eins er búist við að verslunarmenn geri slíkt hið sama í dag.