Ísland áfram ESB-umsóknarríki

Evrópuþingið.
Evrópuþingið. AFP

Tekið er sérstaklega fram í ályktun um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið sem samþykkt var í utanríkismálanefnd Evrópuþingsins fyrir helgi að landið sé áfram skilgreint sem umsóknarríki að sambandinu. Orðalag þess efnis var ekki í upphaflegri útgáfu ályktunarinnar sem lögð var fyrir nefndina en var bætt við að frumkvæði sænska jafnaðarmannsins Göran Färm. Þá er ítrekað að Evrópusambandið sé sem fyrr reiðubúið að halda áfram umsóknarferlinu.

Sömuleiðis segir að utanríkismálanefndin taki mið af þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að bíða ekki með að halda þjóðaratkvæðagreiðslu þar til viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið er lokið. Ennfremur að nefndin hlakki til umræðu á Alþingi um stöðu umsóknarinnar og þróunar mála innan sambandsins. Þá býður utanríkismálanefndin fram aðstoð sína við að undirbúa skýrslu í þeim efnum. Eins og mbl.is greindi frá í byrjun nóvember hefur utanríkisráuneytið samið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um gerð slíkra skýrslu sem síðan verði kynnt Alþingi áður en endanleg ákvörðun verði tekið um framhald umsóknarferlisins.

Nefndin segist í ályktuninni ennfremur vonast til þess að skýrslan liggi fyrir innan tíðar og að hún bíði frekari ákvarðana íslenskra stjórnvalda um framhald málsins. Þar með talið ákvörðunar um það hvort haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um inngöngu í Evrópusambandið eða ekki. Nefndin voni að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin í fyrirsjáanlegri framtíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert