Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) telur í nýju áhættumati á sætuefninu aspartam, að efnið sé ásamt niðurbrotsefnum þess hættulaust í því magni sem fólks neytir þess með fæðu. Er þetta fyrsta heildstæða áhættumatið sem stofnunin gerir á efninu. Í áhættumatinu var lagt mat á allar fáanlega vísindarannsóknir á aspartami og niðurbrotsefnum þess, bæði sem framkvæmdar hafa verið á mönnum og dýrum. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.
Þeirri tilgátu að efnið geti valdið skemmdum á genum, eða að það ýti undir krabbamein, hafnar nefndin. Einnig hafnar nefndin þeim tilgátum um að efnið skaði taugakerfið og geti haft áhrif á hegðun og atferli barna og fullorðinna. Þá á ásættanleg dagleg inntaka efnisins ekki að fela í sér neikvæð áhrif á fóstur.
Lengi hefur verið þrætt um sætuefnið aspartam, eða allt frá því að bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitið ákvað árið 1981 að heimila notkun á því í matvæli.