„Ég ætla að halda áfram. Það kemur ekkert annað til greina,“ segir Piotr Jakubek, en hann varð fyrir miklu tjóni þegar eldur kom upp í matvöruversluninni Mini Market í Drafnarfelli í Breiðholti á mánudaginn. Hann segir að tryggingin nái ekki að bæta það tjón sem hann varð fyrir.
Allt sem var inni í versluninni eyðilagðist í brunanum. Piotr segir að vinna sé hafin við að moka út úr versluninni. Tryggingafélagið hafi gefið leyfi fyrir því, en það eigi hins vegar eftir að meta tjón á kælum og tækjum.
Piotr segir ljóst að tryggingin sem hann var með nái ekki að bæta allt það tjón sem hann varð fyrir. „Lagerinn var tryggður fyrir 10 milljónum og tæki voru tryggð fyrir 10 milljónum. Tjónið er hins vegar mun meira. Það versta er að ég var ekki með rekstrartryggingu. Ég vissi ekki að svoleiðis trygging væri til. Ég hef verið í samskiptum við tryggingafélagið í gegnum árin og það vissu allir hvað ég var að fást við, en enginn benti mér á að ég gæti keypt rekstrartryggingu,“ segir Piotr.
Piotr var búinn að gera kauptilboð í verslunarhúsnæðið sem brann og átti hann að borga fyrstu greiðslu 20. desember. Hann segir að nú séu þau viðskipti í uppnámi og bankinn, sem var búinn að lofa að fjármagna kaupin, sé búinn að kippa að sér hendinni. Piotr segir að áætlað sé að það taki fjóra mánuði að gera við húsnæðið. Hann segist því ekki sjá fram á að geta opnað verslunina á þessum stað fyrr en í vor.
Piotr segist ekki geta beðið svo lengi. Hann eigi mikið af vörum sem eru óseldar, en hann er með vörur í um 600 metra lagerhúsnæði á öðrum stað. Einnig voru gámar á leiðinni með vörur sem áttu að seljast fyrir jólin. Hann segist því verða að minnka lagerinn sem fyrst til að lágmarka tjónið.
„Ég verð að finna nýtt húsnæði til að geta losað þær vörur sem ég á,“ segir Piotr.
Pitor segir að hann ætli í dag að senda birgjum bréf í dag og gera þeim grein fyrir stöðunni. Vörurnar sem eyðilögðust í brunanum eru ógreiddar og Pitor segist þurfa að óska eftir greiðslufresti.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn á upptökum brunans ekki lokið.