Sigrún Ragna Rafnsdóttir og Björn Jónsson afhentu nýverið gjöf úr minningarsjóði dóttur sinnar, Lilju Ránar, sem lést í hörmulegu slysi í Breiðdal 31. mars síðastliðinn, aðeins þriggja ára gömul.
Eftir andlátið stofnaði fólk sem tengt er fjölskyldunni minningarsjóð í hennar nafni. Sigrún og Björn vildu láta gott af honum leiða og nýta sjóðinn til góðra og uppbyggilega verka.
„Við vissum að starfsfólk leikskólans á Hádegishöfða, þar sem Lilja var fyrsta árið sitt, langaði mikið í sérsaka þroskabubba. Einnig starfsfólkið á Skógarlandi þar sem Lilja var eftir að við fluttum úr Fellabæ yfir í Egilsstaði. Þar sem leikskólarnir fengu ekki fjárveitingu til að kaupa svona kubbasett fannst okkur tilvalið að gefa þeim hvorum sitt settið í minningu hennar. Við heyrðum svo í útvarpinu að Lions hefði gefið leikföng í sjúkrabíla í Reykjavík og ákváðum að gera það líka,“ segir Sigrún í viðtali sem birtist í Austurglugganum.
Allir dagar erfiðir
Rúmir átta mánuðir eru síðan Lilja Rán lést og segist fjölskyldan aðeins taka einn dag í einu. „Þetta er nokkuð sem ekkert foreldri á að þurfa að ganga í gegnum. Það eru allir dagar erfiðir, bara misjafnlega. Vinirnir og fjölskyldan er það dýrmætasta sem við eigum og hefur sá stuðningur hjálpað okkur mikið síðan slysið varð, hann finnum við við úr öllum áttum. Við höfum mikið leitað til vina og allir hafa verið boðnir og búnir að hjálpa okkur. Vinkona okkar, Sigrún Jóna Hauksdóttir, bauðst til þess að taka að sér allt í tengslum við jarðarförina, en það var ómetanlegt,“ segja Sigrún og Björn.
Það er ekki ódýrt að standa straum af útför, en Björn segir að sá kostnaður sé sambærilegur verði á góðum bíl. „Auðvitað skiljum við að einkaaðilar þurfi að fá greitt fyrir sína vinnu. Við urðum þó mjög hissa þegar við fengum reikning upp á 40.000 krónur frá Ríkisútvarpinu, en það var gjaldið fyrir að fá dánartilkynninguna lesna þrisvar sinnum. Eldra fólk sem búið er að borga í Ríkisútvarpið í tugi ára fær ekki einu sinni dánartilkynninguna sína á sómasamlegu verði, þetta þykir okkur skammarlegt,“ segir Björn.
Sigrún og Björn segjast líta lífið allt öðrum augum en þau gerðu áður. „Maður á aldrei að geyma eitthvað sem mann langar til þess að gera, það veit enginn hvenær það verður of seint.“