Vildu breyta dagskrá þingsins

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kölluðu eftir því á Alþingi í dag að tvö stjórnarfrumvörp yrðu færð framar á dagskrá þingsins í dag þannig að afgreiða mætti þau áður en önnur umræða um fjáraukalög héldi áfram en umræðan stóð fram á kvöld í gær. Frumvörpin varða frestun nauðungarsala og fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Bentu þeir á að skipt gæti marga máli að frumvörpin yrðu afgreidd sem fyrst.

Einnig vildu stjórnarandstæðingar að frumvarp um breytingar á fjáraukalögum frá stjórnarandstöðunni um að þeir sem væru á atvinnuleysisbótum fengju desemberuppbót yrði samþykkt. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók til máls og sagði dagskrá þingsins í dag vera ákveðna. Þá bentu stjórnarliðar á að stjórnarfrumvörpin tvö væru á dagskrá þingsins í dag og yrðu tekin fyrir þegar önnur mál hefðu verið afgreidd.

Þá kvörtuðu stjórnarandstæðingar yfir því að stjórnarliðar hefðu lítinn þátt tekið í umræðum á Alþingi í gærkvöldi um fjáraukalögin. Stjórnarliðar bentu hins vegar á að nokkrir úr þeirra röðum hefðu verið viðstaddir umræðuna. Þess utan hefðu sömu þingmenn og kvörtuðu nú yfir fjarveru stjórnarþingmanna ekki látið sjá sig á síðasta kjörtímabili þegar þáverandi stjórnarandstaða hafi kvartað yfir fjarveru þeirra.

Samþykkt var að halda kvöldfund í kvöld á Alþingi og stendur nú yfir framhald annarrar umræðu um fjáraukalög. Auk þeirra eru 23 önnur mál á dagskrá þingsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert