Tilbúinn til að taka yfir rekstur Eirar

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. Morgunblaðið/Ómar

„Ég er undrandi á þeim viðbrögðum sem tilboðið fékk hjá stjórn Eirar,“ segir Kristján Sigurðsson viðskiptafræðingur, en hann hefur gert tilboð í allan rekstur hjúkrunarheimilis Eirar. Stjórn Eirar hafnaði tilboðinu.

Kristján hefur starfað sem verkefnisstjóri hjá Grund í fjögur ár og var áður framkvæmdastjóri Hrafnistu í 9 ár. Hann tekur skýrt fram að Grund komi ekki nærri tilboðinu.

Nú standa yfir nauðasamningar á Eir, en íbúðaréttarhöfum hefur verið boðið að íbúðaréttur þeirra verði greiddur með skuldabréfi til 30 ára með 3,5% vöxtum.

„Ég tel að stjórn Eirar hafi aldrei skoðað þetta tilboð af neinni alvöru. Ég er hissa á því vegna þess að þarna var verið að bjóða upp á aðra leið en skuldabréfaleiðina. Mér finnst óviturlegt í þessari stöðu að skoða ekki annan valkost,“ sagði Kristján.

Kristján sagði að tilboðið sem hann lagði fram gerði ekki ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður eða aðrir kröfuhafar þyrftu að sætta sig við verri kjör en fælust í skuldabréfaleiðinni. Þar er miðað við að ógreiddar körfur í greiðslustöðvun bætist við höfuðstól lána. Kristján sagði að sitt tilboð gerði ráð fyrir sömu útfærslu.

„Forsenda tilboðsins að íbúar vilji að við komum að rekstrinum“

„Einn af þeim fyrirvörum sem við settum í viljayfirlýsingu um kauptilboðið væri að íbúarnir vildu fá okkur og samþykktu að við tækjum að  okkur  reksturinn. Ef íbúar segjast ekki vilja að við komum að rekstrinum þá verður ekki farið lengra með málið.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar aðstæður breytast hjá fólki, t.d. ef fólk er í stórri íbúð og maki fellur frá og þarf að fara í minni íbúð þá leysum við það eins og við höfum t.d. gert á Grund. Sama ef íbúi veikist og þarf að fara á hjúkrunarheimili þá getur hann að sjálfssögðu skilað íbúðinni.

Ég finn í því starfi sem ég er í að það er eftirspurn eftir íbúðum,  en stjórn fyrirtækisins og stöðugleiki í rekstri verður að vera með þeim hætti að fólk beri traust til þín. Annars vill enginn koma til þín,“ sagði Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert