Hreiðar fékk fimm og hálfs árs fangelsi

Hreiðar Már í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hreiðar Már í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í fimm ára fangelsi. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka í Lúxemborg, fékk þrjú ár og Ólafur Ólafsson, sem var stór hluthafi í Kaupþingi, fékk þriggja og hálfs árs dóm.

Ákærur í málinu voru gefnar út vegna viðskipta sem áttu sér stað fyrir rúmlega fimm árum, en 22. september 2008 var tilkynnt að eignarhaldsfélag Sheikhs Mohammeds Bin Khalifa Al Thani, Q Iceland Finance ehf, hefði keypt 5,01% hlut í Kaupþingi. Kaupverðið var 25,7 milljarðar króna. Tveimur vikum síðar komst Kaupþing í þrot.

Kaupþing lánaði 25,7 milljarða vegna hlutabréfakaupa í bankanum

Flestir töldu að Al Thani, sem er í hópi ríkustu manna heims, hefði komið með fjármagn inn í bankann í tengslum við þessi kaup, en við meðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur upplýsti Hreiðar Már Sigurðsson að Kaupþing hefði lánað allt kaupverðið. Ekkert fjármagn hefði farið úr bankanum og ekkert hefði komið inn í hann. Hann lagði jafnframt áherslu á að þetta hefðu verið hagstæð viðskipti fyrir bankann sem sæist best af því að slitastjórn Kaupþings hefði fengið 3,5 milljarða greidda vegna sjálfsskuldaábyrgðar sem Al Thani veitti vegna hluta kaupverðsins.

Flókin viðskiptaflétta

Viðskiptafléttan á bak við þessi viðskipti er nokkuð flókin. Kaupþing lánaði félagi á Tortóla, sem hét Gerland Assets, 12.863.497.675 krónur. Félagið var í eigu Ólafs Ólafssonar, sem á þeim tíma átti 9,88% í Kaupþingi. Kaupþing lánaði einnig félaginu Serval Trading sömu upphæð, en það félag var í eigu Al Thani. Peningarnir frá báðum þessum félögum runnu 29. september 2008 inn á reikning félagsins Choice Stay. Þaðan fóru peningarnir inn á reikning Q Iceland Finance sem greiddi þá aftur til bankans.

Lánið til Serval var með sjálfskuldaábyrgð Al Thani. Eftir að Kaupþing féll voru peningar annars félags, Brooks Trading, sem einnig var í eigu Al Thani, notaðir til að gera upp skuldina við Al Thani. Kaupþing hafði í tengslum við þessi viðskipti lánað Brooks 50 milljónir dollara. Ekkert hefur hins vegar verið greitt af láninu til Gerlands.

Ákært fyrir markaðsmisnotkun

Allir fjórir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun, en saksóknari taldi að þeir hefðu blekkt markaðinn með því að gefa misvísandi upplýsingar um viðskiptin. Ekki var upplýst fyrr en eftir fall Kaupþings að bankinn lánaði allt kaupverðið og ekki var heldur upplýst um aðild Ólafs að viðskiptunum.

Sakborningar neituðu allir sök í málinu. Þeir sögðu að ekki væri venja að upplýsa í tilkynningu til Kauphallar um fjármögnun hlutabréfaviðskipta og ekki hefði verið lagaskylda að upplýsa um aðild Ólafs að viðskiptunum. Hreiðar Már hafnaði því að nokkuð hefði verið óeðlilegt við hvernig staðið var að lánveitingum í tengslum við þessi viðskipti, en viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð innan bankans af hálfu undirmanna sinna. T.d. hefði lánveitingin til Serval ekki verið borin undir lánanefnd bankans.

Al Thani bar ekki vitni fyrir dómi, en starfsmenn sérstaks saksóknara tóku skýrslu af honum í tengslum við rannsóknina. Þar sagðist hann ekki hafa vitað um beina aðild Ólafs að viðskiptunum. Lögmenn Al Thani, sem sömdu um uppgjör við slitastjórn Kaupþings, sögðu að hann liti svo á að hann hafi verið blekktur.

Saksóknarar við uppkvaðningu dómsins í dag.
Saksóknarar við uppkvaðningu dómsins í dag. mbl.is/Rósa Braga
Al Thani-málið er eitt umfangsmesta mál sem embætti sérstaks saksóknara …
Al Thani-málið er eitt umfangsmesta mál sem embætti sérstaks saksóknara hefur rannsakað. Málsskjöl í málinu eru um 9.000 blaðsíður. mbl.is/Rósa Braga
Verjendur sakborninga við uppkvaðningu dómsins í dag.
Verjendur sakborninga við uppkvaðningu dómsins í dag. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert