Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fagnar því að ekki verði dregið eins mikið úr framlagi Íslands til þróunarsamvinnu eins og útlit var fyrir á tímabili. Hann segir það jafnframt hafa verið jákvætt að sjá hve mikil og afdráttarlaus umræða skapaðist í þjóðfélaginu um málið.
Þetta kom fram í máli utanríkisráðherra þegar hann ávarpaði í dag málþing um framlag íslenskra kvenna og stjórnvalda til friðaruppbyggingar á stríðsátakasvæðum.
Gunnar Bragi vísaði í skoðanakannanir sem sýnt hafa að hátt í 90% Íslendinga styðji við alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. „Við þurfum að auka vitund í samfélaginu um mikilvægi þess að Íslendingar leggi sitt að mörkum,“ sagði utanríkisráðherra.
Ríkisstjórnin tilkynnti fyrr í vikunni að fallið hefði verið að hluta frá stórfelldum niðurskurði á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Niðurskurðurinn er engu að síður um 460 milljónir króna, eða um 0,22% af þjóðartekjum. Það er lækkun úr 0,26% á þessu ári.
„Sem betur fer höfum við á síðustu dögum náð að draga úr þeirri lækkun sem við stóðum frammi fyrir,“ sagði Gunnar Bragi en bætti við að eins og staðan sé verði vart hjá því komist að skera eitthvað niður.
Hann áréttaði að enn sé stefnt að því að uppfylla viðmiðunarmark Sameinuðu þjóðanna, um 0,7% af þjóðartekjum, þótt það kunni að tefjast eitthvað.
Samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Ísland er stefnt að því að framlögin verði hækkuð árin 2015 og 2016 og 0,7% markinu verði náð fyrir árið 2019.