Ekki er fyllilega ljóst hver verðbólguáhrif af skuldaniðurfellingartillögum ríkisstjórnarinnar verða.
Starfshópurinn sem vann tillögurnar segir þau vera næstum engin, en Seðlabankinn og greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka hafa gert athugasemdir við þær spár.
Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir ríkisstjórnina ekkert hafa gefið út um hvernig ætti að stemma stigu við verðbólgu eftir að aðgerðirnar koma til framkvæmda. „Þetta á að gerast eftir það marga mánuði að óvissuþáttum um verðbólguspána fjölgar.“ Hún telur hagtölur þriðja ársfjórðungs benda til þess að slakinn í hagkerfinu sé ekki eins mikill og gert hafi verið ráð fyrir í spálíkani starfshópsins. „Ég held að við séum komin aðeins lengra í efnahagsbatanum, atvinnumarkaðurinn hefur verið að batna og fleira sem bendir til þess,“ segir Regína í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Greiningardeild Arion banka benti í Markaðspunktum sínum 6. desember á að í líkaninu sem stuðst var við þegar áhrifin voru metin hefði verið gert ráð fyrir að áhrif niðurfellinganna yrðu svipuð og áhrif fyrri niðurfellinga, svo sem 110% leiðarinnar. Þar hefði verið um að ræða mjög yfirskuldsett heimili sem hefðu ekki getað aukið neyslu sína eftir niðurfellinguna, og þar með ekki haft verðbólguhvetjandi áhrif. Seðlabankinn bendir einnig á hann hafi í ritum sínum rakið hvernig þættir eins og heimild til úttektar á séreignarsparnaði, gengisdómar og sérstakar vaxtabætur hafi stutt við einkaneyslu og aukið þannig eftirspurn, dregið úr samdrættinum og flýtt efnahagsbatanum.
Bankinn segir það geta verið að þær aðgerðir hafi gert það að verkum að verðbólga varð eitthvað meiri en ella þótt bankinn hafi ekki birt sérstaka úttekt á því opinberlega. Mikilvægt er að hafa í huga ef bera á saman áhrif lækkunar skulda nú og á fyrstu árum eftir fjármálakreppuna að framan af var mun meiri slaki í þjóðarbúinu og því rými og nauðsyn til að styðja við eftirspurn og auka hana án þess að það ylli einhverjum verulegum verðbólguáhrifum.
Aðstæður núna eru aðrar: Slakinn er líklega að stórum hluta horfinn og miðað við allar opinberar spár verður hann örugglega horfinn þegar meginhluti þessara aðgerða kemur fram. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér að verðbólguáhrif aðgerða verða meiri nú en áður.