Sigmundur hrósar Seðlabankanum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Rósa Braga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að viðbrögð Seðlabanka Íslands (SÍ) við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hafi verið mun jákvæðari en hann þorði að vona.

„Miðað við það hvernig bankinn hefur fjallað um skuldamál fram að þessu þá eru viðbrögð hans núna með besta móti, og ástæða fyrir hrósa bankanum fyrir það,“ sagði Sigmundur Davíð þegar hann svaraði fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. 

Sigmundur Davíð bætti við, að í áætlun SÍ væri gert ráð fyrir örlítið meiri verðbólguáhrifum en er að finna í greiningu sem sérfræðingahópur um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána vann.

„Það eru mjög óveruleg áhrif sem hægt er að hafa áhrif á, þ.e. að vinna gegn. Og það er gert, ekki hvað síst, með seinni hluta aðgerðanna, þ.e.a.s. öðrum áfanganum varðandi skattaáfslátt vegna séreignasparnaðar. Það virkar í hina áttina. Þannig að saman virka þessar leiðir til að magna upp kosti hvorrar leiðar fyrir sig og draga úr ókostunum. Og það er hluti af því sem er svo snjallt við þessa ráðstöfun,“ sagði Sigmundur Davíð.

Ósammála pólitík AGS

Guðmundur spurði Sigmund Davíð m.a. út í afstöðu hans gagnvart viðbrögðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 

„Ég hef fyrir mitt leyti marglýst þeirri skoðun minni að ég sé algjörlega ósammála þeirri pólitík sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn rekur og hefur því miður ekki reynst heimilunum sérstaklega vel í mörgum, eða flestum, þeirra landa sem þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið að málum,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert