Forseti Alþýðusambands Íslands gagnrýnir forystu ríkisstjórnar og meirihlutans á Alþingi fyrir að koma ekki til móts við óskir verkalýðshreyfingarinnar til að liðka fyrir gerð nýs kjarasamnings.
Ekki komi til greina að ganga frá kjarasamningi á meðan menntun og þjónustu við atvinnuleitendur sé rústað.
Staðan í kjaraviðræðunum er erfið, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. Eftir að slitnaði upp úr viðræðum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hafa samtök verkmanna- og verslunarmannafélaga vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara og ekki langt í að iðnaðarmannafélögin geri það einnig. Formlegar og óformlegar viðræður hafa verið í vikunni og verður þeim haldið áfram um helgina, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.