Telur að réttlætinu hafi verið fullnægt

„Ég er mjög stolt og ánægð því ég tel að réttlætinu hafi verið fullnægt í þessu máli. Þetta sýnir íslensku þjóðinni að það tók því að rannsaka það sem gerðist,“ sagði Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi ráðgjafi Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, í viðtali við Morgunblaðið í gær um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu svonefnda. 

Hún hafði fengið fréttir af niðurstöðu Héraðsdóms í fyrradag þar sem kveðnir voru upp þyngstu dómar í efnahagsbrotamálum hér á landi sem sögur fara af. Fjórir fyrrverandi Kaupþingsmenn voru dæmdir í allt frá þriggja ára fangelsi til fimm og hálfs árs fangelsisvistar.

„Ég var mjög viss um að hópur Ólafs myndi ljúka rannsókninni og gefa út ákæru. Einnig tel ég að Ísland eigi að nýta sér og vera stolt af þeirri staðreynd að það er eina landið sem er raunverulega að saksækja brotlega bankamenn.“

Eva Joly tók dæmi af Bandaríkjunum þar sem sýnt var fram á margskonar misferli, til dæmis hjá fjármálastofnunum á borð við JP Morgan og Goldman Sachs. Þar var refsingin háar fjársektir. „Ég held að það verði engin breyting á vinnubrögðum fyrr en þeir sem bera ábyrgð þurfa að gjalda fyrir með frelsi sínu og eignum,“ sagði Eva.

Telur hún að fangelsisdómar séu mikilvægir í málum sem þessum?

„Já, þeir eru mikilvægir,“ sagði Eva. „Ég tel að heimurinn líti til ykkar. Þetta sýnir að það er mögulegt að efna til alþjóðlegrar rannsóknar með góðum árangri. Ég vil einnig benda á að þessi alþjóðlega rannsókn hefur farið fram á skemmstum mögulegum tíma. Upphafið var 2008 og dómurinn féll fimm árum síðar. Það er nokkuð gott. Það er í rauninni mjög gott.“

Eva Joly kvaðst vera þess fullviss að fleiri mikilvæg mál varðandi efnahagshrunið ættu eftir að koma til kasta dómstóla hér á landi. „Þetta er leið til að segja íslensku þjóðinni að réttlætinu hafi verið fullnægt. Það voru framin afbrot og fólk er dæmt, það kemst ekki upp með þetta. Menn ollu hruninu, það datt ekki af himnum ofan og varð ekki heldur af náttúrulegum orsökum. Það var manngert,“ sagði Eva Joly.

Hún kvaðst telja að ástæða sé til að fagna niðurstöðu héraðsdóms. „Það hefur verið átak fyrir íslensku þjóðina að borga fyrir þessar rannsóknir. Árangur hefur náðst fyrir tilstilli íslenskra laga og reglna og líka vegna alþjóðlegara sáttmála sem Ísland á aðild að. Þetta er mjög mikilvægt og sýnir stöðu ykkar í heiminum,“ sagði Eva Joly.

Sérstakur ráðgjafi

Samningur Evu Joly, fyrrverandi rannsóknardómara í Frakklandi, við embætti sérstaks saksóknara var undirritaður í mars 2009. Hún veitti embættinu ráðgjöf og eins sérfræðingar á hennar vegum, m.a. um meðferð réttarbeiðna milli landa og eins um tengsl við erlenda sérfræðinga á ýmsum sviðum. Eva Joly lét af störfum fyrir embætti sérstaks saksóknara haustið 2010 þegar hún ákvað að fara í forsetaframboð í Frakklandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert