Ísland á erindi á átakasvæðum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra er hætt störfum í Afganistan …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra er hætt störfum í Afganistan og nýkomin til Íslands. mbl.is/Rósa Braga

Konur eru meirihluti þeirra sérfræðinga sem Ísland sendir til starfa á vettvangi friðargæslu; staðreynd sem vekur víða athygli. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er nýkomin heim eftir tveggja ára starf í Afganistan, segir að þegar kemur að jafnréttismálum líti enginn á Íslendinga sem smáþjóð.

Framlag íslenskra kvenna og stjórnvalda til friðaruppbyggingar á stríðsátakasvæðum var tl umfjöllunar á sérstöku málþingi sem haldið var í dag á lokadegi 16 daga átaks gegn kynbundu ofbeldi. 

Konur verða að eiga sæti við borðið

„Það er reynsla mín og botnföst sannfæring að það verður að vera krítískur fjöldi kvenna alls staðar þar sem ákvarðanir eru teknar, alls staðar þar sem stefna er mótuð, til þess að breytingar verði,“ sagði Ingibjörg Sólrún, rétt nýlent á landinu.

Hún stendur nú á tímamótum því starfi hennar sem yfirmaður UN Women í Kabúl í Afganistan er lokið, en innan skamms hefur hún störf sem umdæmisstjóri UN Women í Evrópu og Mið-Asíu, með aðsetur á nýrri svæðisskrifstofu í Istanbúl í Tyrklandi. 

Árið 2005 var tekin um það pólitísk ákvörðun að Ísland myndi auka sín framlög til þróunarmála, með sérstaka áherslu á jafnréttismál. Allar götur síðan hefur kvennastofnun Sameinuðu þjóðanna, UN Women (áður Unifem) verið í brennidepli.

Ísland sker sig einnig úr hvað varðar kynjahlutfall í friðargæslustörfum, því frá árinu 2011 hafa konur verið meirihluti sérfræðinga sem sendir eru á vettvang. Hermann Ingólfsson, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins, sagði að það eitt, að Íslendingar hafi sýnt að þetta sé hægt, veki mikla athygli erlendis.

Vilji alþjóðasamfélagsins í orði en ekki á borði

„Það er ekki auðvelt að vinna á þessum málum á alþjóðavettvangi, því viljinn til þess að raunverulega taka á málefnum kvenna, hann er meira í orði en á borði,“ sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við að það ætti ekki bara við um Afganistan heldur alþjóðasamfélagið allt.

Sameinuðu þjóðirnar hefur gert 7 samþykktir um konur og öryggi en þrátt fyrir þetta hafa konur ekki verið nema um 8% fulltrúa nefnda sem starfað hafa að þessum málum á árunum 1992-2010 og einungis 3% þeirra sem skrifað hafa undir friðarsamninga.

„Þannig að þótt þær séu margar samþykktirnar og mörg orðin sem eru sögð um þessi mál, þá eru efndirnar ekki að sama skapi miklar,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Hefur marga fjöruna sopið

Sjálf sagðist hún ekki kalla allt ömmu sína „og ég hef marga fjöruna sopið í pólitík, eins og kallarnir segja,“ en það sé ekki auðvelt að tala fyrir sjónarmiðum kvenna á vikulegum fundum Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, þegar aðeins 2 af 34 fundarmönnum séu konur.

„Það er erfitt að sitja andspænis afgönskum stjórnvöldum og segja þeim að það sé mikilvægt fyrir þá að vera með konur sem víðast, þegar alþjóðasamfélagið á staðnum er alveg eins. Því þegar stjórnvöld funda með sendiherrum annarra landa og fulltrúum stofnana Sameinuðu þjóðanna, þá má ekki á milli sjá hver er með fæstu konurnar. Þetta þarf að breytast.“

Þarna hefur Ísland mikið vægi, að mati Ingibjargar Sólrúnar. „Ég held að Íslendingar geti talsvert látið um sig muna á þessu sviði, vegna þess að við getum talað út frá styrk. Við erum þrátt fyrir allt í fyrsta sæti þegar kemur að jafnrétti kynja, við eigum merkilega sögu í jafnréttismálum og við eigum að halda henni á lofti. Andrúmsloftið á Íslandi, staða kvenna og sú pólitíska stefnumótun sem hefur átt sér stað hér gefur okkur kraft til að miðla “

Skelfileg staða afganskra kvenna

Afganistan svipar til Íslands að sumu leyti sögn Ingibjargar Sólrúnar. Landslagið á miðhálendinu minnir til dæmis um margt á Ísland. En þegar kemur að mannlífinu og stöðu kvenna skilja himin og haf þessi samfélög að.

„Staða kvenna í Afganistan er skelfileg. 80% þeirra eru ólæsar og óskrifandi, yfir 70% þeirra hafa upplifað ofbeldi og yfir 60% kvenna í Afganistan eru í nauðungarhjónaböndum,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Engu að síður séu konur líka gerendur í afgönsku samfélagi, þrátt fyrir að það sé einn sá staður heims þar sem er hvað hættulegast fyrir konur að tjá sig. „Þarna er öflugt samfélag kvenna sem stíga fram og láta sig mál varða, tala opinberlega, koma í fjölmiðla og beita stjórnvöld þrýstingi. Við eigum ekki að líta bara á afganskar konur sem fórnarlömb. Við eigum að styrkja þær til að breyta samfélaginu sjálfar, því það getur ekki gerst að ofan, það verður að gerast frá grunni, með fólkinu í samfélaginu sjálfu.“

Kona bíður læknisviðtals ásamt dætrum sínum í Baharak í Afganistan.
Kona bíður læknisviðtals ásamt dætrum sínum í Baharak í Afganistan. AFP
Afganskar konur bera vatnsskjólur á höfði sér í útjaðri Kabúl.
Afganskar konur bera vatnsskjólur á höfði sér í útjaðri Kabúl. AFP
Afgönsk skólastúlka í borginni Mazar-e-Sharif.
Afgönsk skólastúlka í borginni Mazar-e-Sharif. AFP
Afganskar konur versla á markaði í Herat.
Afganskar konur versla á markaði í Herat. SHAH MARAI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert